*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 4. desember 2007 19:04

Aldrei verið lokað lengur fyrir viðskipti í Kauphöllinni

Forstjóri Kauphallarinnar segir óheppilegt að loka í heilan dag

Ritstjórn

Kauphöllin stöðvaði öll viðskipti með hlutabréf í FL Group í morgun og stóð sú lokun yfir í allan dag, sem er annar af tveimur lengstu tímum sölustöðvunar hlutabréfa í sögu Kauphallarinnar. Sú lokun sem varað hefur jafnlengi átti sér stað í september 2003, í tengslum við hinar miklu tilfærslur sem þá urðu á eignarhlutum í Eimskipafélagi Íslands, Straumi-Burðarási og Landsbankanum. Þórður Friðjónsson, forstjóri kauphallarinnar, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að opnað yrði fyrir viðskiptin á morgun, hvort sem ákvörðun forsvarsmanna FL Group um framtíð fyrirtækisins myndu liggja fyrir eða ekki. Til þess kemur hins vegar ekki, því að skýrt var frá framtíðaráformum eftir lokun markaðar í dag.

Nokkrum sinnum hefur kauphöllin þurft að stöðva viðskipti vegna óvissu um stöðu fyrirtækja, en aðeins hluta úr degi hverju sinni en ekki frá upphafi viðskiptadags til loka. „Meginsjónarmið okkar er að loka sem sjaldnast og í sem skemmstan tíma hverju sinni. En það hefur ríkt óvissa um félagið og við viljum tryggja jafnræði fjárfesta,“ segir Þórður. „Það er mikilvægt fyrir trúverðugleika markaðarins að viðskipti gangi fyrir sig með sem hnökraminnstum hætti og að ekki sé ójafnræði meðal fjárfesta. Það er jafnframt mikilvægt út frá vernd fjárfesta að þeir eigi að minnsta kosti möguleika á að bjóða bréfin til sölu, vilji þeir það, og að það ferli sé truflað sem allra minnst. Auðvitað er matsatriði hversu lengi á að loka hverju sinni og vissulega geta þær aðstæður komið upp að það sé skynsamlegt og í þágu fjárfesta að lokað sé í ákveðinn tíma, en almennt séð finnst mér óheppilegt að loka þurfi í heilan dag.“

Lækkanir voru miklar í kauphöllinni í gær, meiri en víðast hvar annars staðar en þó ekki svo mjög að en skeri sérstaklega úr þeim lækkunum sem urðu á verðbréfamörkuðum víðs vegar um heiminn. Þórður segir að óvissa um stöðu FL Group geti vissulega hafa valdið óróa fjárfesta en þó sé ekki rétt að gera sjálfkrafa ráð fyrir því að ástæðan sé sú.

Ástandið á hlutabréfamörkuðum í heiminum hefur verið einkennst af miklum sveiflum að undanförnu og segir Þórður að helst megi líkja því við kött á heitu blikkþaki. „Verðið hefur verið með rykkjum og skrykkjum sem endurspeglar óvissuna á markaði í Bandaríkjunum og endurmati á áhættunni í lánsviðskiptum. Þessi áhrif hafa náð hingað til lands og fyrirtækin eru farin að hreyfast miklu meira í takt við það sem gerist erlendis; það fylgir alþjóðavæðingunni. Íslenski markaðurinn hefur breyst frá því að vera staðbundinn markaður í að vera alþjóðlegur markaður,“ segir Þórður.  „75% af tekjum skráðra fyrirtækja hérlendis eiga sér uppruna erlendis og því eðlilegt að markaðurinn hér hreyfist mjög í takt við markaði erlendis. Jafnframt þarf að hafa í huga að hérlendis eru fjármálafyrirtæki mjög stór á markaðinum og markaðurinn hreyfist því mjög í takt við það sem gerist hjá alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum.“

Meira í Viðskiptablaðinu á morgun

Ýtarlega umfjöllun um málefni FL Group má lesa í Viðskiptablaðinu á morgun. Blaðið verður aðgengilegt áskrifendum hér á vefnum frá kl. 21 í kvöld. Áskrifendur geta sótt um lykilorð að vefútgáfu blaðsins með því að senda póst á vb@vb.is.