Bogi Nils Bogason tók formlega við starfi forstjóra Icelandair Group í desember síðastliðnum eftir að hafa verið starfandi forstjóri félagsins frá því að Björgólfur Jóhannsson lét af störfum í ágúst á síðasta ári. Bogi hefur starfað hjá Icelandair Group í rúmlega 10 ár en áður en hann settist í stól forstjóra gegndi hann starfi framkvæmdastjóra fjármála samstæðunnar.

Að sögn Boga var forstjórastaðan ekki efst í huga hans á meðan ráðningarferli nýs forstjóra stóð yfir. „Það fór í gang ráðningarferli skömmu eftir að Björgólfur hætti í lok ágúst þar sem innlendir og erlendir aðilar voru fengnir að verkefninu. Þegar eitthvað var liðið á ferlið var komið að máli við mig um að skoða þann möguleika að vera á lista yfir þá sem komu til greina í forstjórastólinn. Í hreinskilni sagt var ég ekkert búinn að hugsa málið fram að því þar sem hér voru til staðar mörg krefjandi verkefni. Ég er ánægður með að hafa tekið þessari áskorun að leiða áframhaldandi þróun Icelandair til framtíðar. Þetta eru krefjandi tímar en félagið er fjárhagslega sterkt og býr yfir mjög öflugu starfsfólki með gríðarlega þekkingu og reynslu. Ég tel að með skýrri stefnu, hagkvæmni í rekstri og sveigjanleika til að grípa þau tækifæri sem gefast, getum við styrkt félagið og tryggt samkeppnishæfni þess á alþjóðamarkaði.“

Aldrei verið lágfargjaldaflugfélag

Aldrei verið lágfargjaldaflugfélag Eins og fjallað hefur verið um hefur verið ókyrrð í lofti kringum Icelandair á síðustu misserum. Félagið skilaði á síðasta ári tapi í fyrsta sinn í átta ár en afkoma félagsins hefur farið versnandi nær samfleytt frá árinu 2016. Undanfarið hafa verið gerðar breytingar á stefnu fyrirtækisins sem felast helst í því að félagið hyggst einbeita sér að flugrekstri í stað þess að leggja áherslu á ferðaþjónustuna í heild sinni.

„Árið 2012 settum við okkur þá stefnu annars vegar að breyta Íslandi í heilsárs áfangastað og hins vegar að styrkja Ísland sem tengimiðstöð milli NorðurAmeríku og Evrópu. Við töldum það forsendu þess að byggja hér upp öflugt alþjóðlegt flugfélag að fjárfesta í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi og markaðssetningu erlendis. Síðan þá hefur gríðarlega mikill árangur náðst með samhentu átaki allra sem að íslenskri ferðþjónustu koma og tölurnar tala sínu máli. Við töldum því góðan tímapunkt núna að breyta um stefnu og færa okkur frá því að eggja áherslu á ferðaþjónustuna í heild og einbeita okkur að flugrekstrinum sjálfum enda um flókinn rekstur að ræða í  krefjandi alþjóðlegu umhverfi og gríðarlegri samkeppni frá öðrum alþjóðlegum flugrekendum.

Við erum því búin að skerpa á hlutverki okkar. Í stað þess að hugsa vörur okkar og þjónustu út frá Íslandi sem áfangastað eða leiðarkerfinu, þá ætlum við að einbeita okkur að okkar mikilvægasta hlutverki – að búa til einfalda, þægilega og ánægjulega upplifun fyrir viðskiptavini okkar í gegnum allt þjónustuferlið.

Við viljum þó gera það með því að halda áfram að búa til íslenska upplifun fyrir viðskiptavini okkar enda erum við íslenskt flugfélag, byggt á sterkum íslenskum rótum. Við viljum byggja upplifunina á þeim sérkennum og gildum sem við sem Íslendingar teljum okkur hafa fram að færa – eins og að vera úrræðagóð, sveigjanleg og vera tilbúin að leggja mikið á okkur í þjónustu við farþega okkar.“

Bogi segir að breytt stefna feli ekki í sér breytingu á því hvernig flugfélag Icelandair er. „Icelandair hefur að mínu mati aldrei verið með fókusinn á að vera lágfargjaldaflugfélag þannig að við erum ekki að breyta neinu hvað það varðar. Við erum að gera út frá Íslandi og það er tiltölulega dýrt að reka flugfélög og önnur fyrirtæki á hér á landi. Það er mikil stærðarhagkvæmni í flugrekstri en við erum lítil þannig að við komum ekki til með að vera með lægri kostnað en lággjaldaflugfélög sem til dæmis gera út frá Austur-Evrópu og eru með miklu fleiri flugvélar í flotanum eða félög sem eru margfalt stærri en við. Við þurfum að horfa á þjónustuna og hvernig við sinnum okkar viðskiptavinum. Því til viðbótar þurfum við að nýta staðsetningu Íslands og geta boðið upp á gæðavöru og þjónustu sem farþegar okkar vilja kaupa miðað við þann kostnaðarstrúktúr sem við höfum. Í þessum breytingum erum við jafnframt að styrkja lykilinnviði okkar eins og lækkun kostnaðar á öllum sviðum, stýringu á leiðakerfi, tekjustýringu og flugreksturinn almennt. Við erum að gera breytingar innanhúss sem miða að því að gera félagið sterkara í þessari miklu alþjóðlegu samkeppni sem við erum í.“

Nánar er rætt við Boga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .