Alexandra Helga Ívarsdóttir, eiginkona Gylfa Sigurðssonar, festi kaup á verslunarhúsnæði í Ármúla 40, í gegnum félagið sitt Santé North ehf., fyrir 260 milljónir króna í lok síðasta árs. Samkvæmt kaupsamningi var eignin - 547 fermetra verslun og 319 fermetra vörugeymsla - afhent í lok desember. Ekki náðist í Alexöndru Helgu við vinnslu fréttarinnar.

Alexandra Helga stofnaði félagið Móa&Mía ehf. með Móeiði Lárusdóttur í fyrra. Þær opnuðu samnefnda netverslun, sem býður upp á úrval barnafata og annarra barnavara, um mitt síðasta ár.

Von flytur í verslun Bíum Bíum

Verslunarhúsnæðið að Ármúla 40 hefur hýst barnavöruverslunina Von verslun, í eigu Eyrúnar Önnu Tryggvadóttur og Olgu Helenu Ólafsdóttur, undanfarin tvö ár.

Eyrún Anna segir í samtali við Viðskiptablaðið að Von muni á næstu vikum flytja inn í húsnæði verslunarinnar Bíum Bíum, sem þær eignuðust nýlega, að Síðumúla 21. Frá því að þær tóku við Bíum Bíum í september hafi staðið til að sameina verslanirnar tvær undir sama þaki en halda í bæði vörumerkin.

„Á næstu dögum hefjast allsherjar framkvæmdir í húsnæðinu í Síðumúla 21. Við stækkum verslunarrýmið til muna, breytum skipulaginu og gerum búðina fallega,“ segir Eyrún Anna. „Það passar fullkomlega að hafa verslanirnar í sama rými en það felur í sér hagræðingu og veitir okkur betri yfirsýn. Við erum fullar tilhlökkunar og spenntar fyrir komandi tímum.“

Eyrún Anna Tryggvadóttir og Olga Helena Ólafsdóttir, eigendur Bíum Bíum og Vonar verslunar.
Eyrún Anna Tryggvadóttir og Olga Helena Ólafsdóttir, eigendur Bíum Bíum og Vonar verslunar.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.