Sjóður í rekstri Alfa Framtaks ehf. hefur fest kaup á meirihluta hlutafjár í eignarhaldsfélögunum Báli ehf. og Solvent ehf.  Eignarhaldsfélögin hafa bæði verið að fullu í eigu stjórnenda Greiðslumiðlunar Íslands ehf. (GMÍ), en stjórnendur munu áfram eiga félögin á móti sjóðnum. GMÍ er með starfsemi um allt land, en félagið er m.a. eigandi alls hlutafjár Motus ehf. og Greiðslumiðlunar ehf.

Eftir kaupin mun sjóðurinn eiga sem næst 37% eignarhlut í GMÍ, í gegnum áðurnefnd eignarhaldsfélög, en auk eignarhaldsfélaganna er Landsbankinn hf. eigandi að GMÍ.
GMÍ og dótturfélög eru leiðandi aðilar á Íslandi á sviði kröfustjórnunar (Credit Management Services) fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, lífeyrissjóði og opinbera aðila, en þjónusta samstæðunnar felst m.a. í greiðslulausnum, innheimtu, kröfukaupum og lánaumsýslu.

Á meðal viðskiptavina félaganna eru mörg af stærstu fyrirtækjum landsins. Markmið Alfa er að vera öflugur bakhjarl fyrirtækja og stjórn enda þeirra. Áhersla sjóðsins er að fjárfesta í fyrirtækjum sem búa yfir góðu og sannreyndu viðskiptalíkani þar sem stjórnendur hafa árangursmiðað hugarfar. Stefna Alfa er að efla fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í og skilja þannig eftir sig jákvæð fótspor í íslensku atvinnulífi.
„Alfa sér mikil tækifæri í frekari þróun á viðskiptalíkani GMÍ. Samstæðan er með góðan grunnrekstur og hefur jafnframt náð eftirtektarverðum árangri við þróun og nýsköpun á sviði fjártæknilausna“, er haft eftir Gunnari Páli Tryggvasyni, framkvæmdastjóra Alfa.

„GMÍ hefur síðustu 24 árin unnið brautryðjendastarf á Íslandi við þróun og innleiðingu fjártæknilausna á sviði kröfustjórnunar, með það að markmiði að bæta fjárstreymi og langtímaarðsemi viðskiptavina sinna.  Ég tel Alfa vera mjög ákjósanlegan samstarfsaðila fyrir GMÍ, í því skyni að vinna að því að gera framtíðarsýn okkar að veruleika.  Ég hlakka mikið til að vinna að áframhaldandi uppbyggingu samstæðunnar og er þess fullviss að með samstarfinu við Alfa munum við koma meiru í verk á styttri tíma, til hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsfólk, eigendur og samfélagið allt“, segir Sigurður Arnar Jónsson forstjóri GMÍ.