Alfa Framtak á nú eitt í viðræðum um kaup á Domino's á Íslandi af breska félaginu Domino’s Pizza Group að því er heimildir Morgunblaðsins herma.

Fjárfestingarsjóður á vegum Alfa Framtaks var eitt þeirra sem lögðu fram tilboð í haust en meðal annarra bjóðenda var hópur sem samanstóð meðal annars af Birgi Bieltvedt og Skeljungi ásamt hópi sem leiddur var af Þórarni Ævarssyni, stofnanda Spaðans og fyrrverandi framkvæmdastjóra IKEA og Domino’s á Íslandi.

Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að upprunalegt tilboð hóps Birgis hafi verið lægra en annarra en hópnum hafi gefist færi á að leggja fram hærra tilboð sem hafi farið illa í aðra bjóðendur. Nú standi Alfa hins vegar eitt í viðræðum við Domino's Pizza Group.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku færði DPG niður virði Domino's á Íslandi um 2,6 milljarða króna eða 42% vegna verri rekstrarhorfa á Íslandi. Niðurfærslan var sögð endurspegla markaðsaðstæður þar sem mögulegur kaupendahópur sé takmarkaður og langtímahorfur í rekstri hafi versnað.