Alfacom General Trading ehf., félag sem skráð er 50% eigandi að 101 Austurstræti ehf., sem rekið hefur skemmtistaðinn Austur undanfarin ár, var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur þann 26. janúar síðastliðinn. Guðmundur H. Pétursson hæstaréttarlögmaður var skipaður skiptastjóri í búinu.

Alfacom er í eigu tveggja Írana, Effat Kazemi Boland (50%) og Gholamhossein Mohammad Shirazi (50%). Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa staðið yfir deilur milli Bolands og Shirazi um eignarhald á Alfacom sem og 101 Austurstræti. Einnig er ágreiningur um skipan stjórnar í síðarnefnda félaginu. Sakar Boland Shirazi meðal annars um að hafa falsað eignarhald sitt í 101 Austurstræti í ársreikningi félagsins fyrir árið 2016, þar sem hann er tilgreindur eini eigandi félagsins, en hún kveðst vera 50% eigandi að félaginu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að skuldir Alfacom við endurskoðendur og lögmannsstofur hlaupi á milljónum króna. Tveir héraðsdómslögmenn hafa höfðað mál gegn félaginu vegna vanefnda og farið fram á kyrrsetningu á eignarhlut félagsins í Austur.