Álfasala SÁÁ hefst í dag og stendur til sunnudags. Þetta er í 25. skipti sem álfurinn er boðinn til sölu til stuðnings SÁÁ. Valgerður Rúnarsdóttir segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að álfasalan sé ein helsta fjáröflunarleið samtakanna og mikilvægari nú en oftast áður.

„Framlög ríkisins til starfsemi SÁÁ duga ekki fyrir kostnaði. SÁÁ hefur brugðist við með því að greiða fyrir meðferð um 500 sjúklinga á ári af sjálfsaflafé. Þessi niðurgreiðsla SÁÁ á lögbundinni heilbrigðisþjónustu hefur valdið uppsöfnuðum halla sem íþyngir rekstri samtakanna,“ segir Valgerður máli sínu til stuðnings í greininni.

Hún segir að fátt bendi til að ríkið ætli sér að auka framlögin. Óbreytt staða gangi ekki til lengdar. Því hafi SÁÁ tekið erfiða en nauðsynlega ákvörðun um að fækka innlögnum í um 1.800 en þær hafijafnan verið um 2.300 á ári.

Valgerður segir að SÁÁ treysti á stuðning almennings nú sem fyrr. „Við vonumst til að landsmenn taki vel á móti sölufólki álfsins næstu daga,“ segir Valgerður.