Xavier Govare, forstjóri Alfesca, sagði á uppgjörsfundi félagsins seinnipartinn í dag, að hann teldi viðskiptalíkan félagsins gott og að fjölbreytileiki í framleiðslu geri fyrirtækið betur í stakk búið við að takast á við krefjandi markaðsaðstæður. Eins og greint var frá í morgun nam hagnaður félagsins 3,5 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi, og samtals 28,6 milljónum evra á fjárhagsári félagsins, sem nær frá 1.júlí til 30.júní. „Við erum ánægð með góðar niðurstöður. EBITDA framlegðarmarkmið okkar náðist,“ sagði Xavier Govare á fundinum og hér vitnar hann í 10% EBITDA hlutfall á fjárhagsárinu sem lauk þann 30.júní. Forstjóri Alfesca sagði á fundinum að markaðsaðstæður væru erfiðar og í því samhengi á hann aðallega við háa verðbólgu í Evrópu, minnkandi einkaneyslu, svartsýni neytenda og síðast en ekki síst gríðarlega hátt hrávöruverð. Xavier sagði að erfitt væri að velta hækkandi hrávöruverði yfir á neytendur, því einkaneysla er að dragast saman á sama tíma og afurðaverð hefur farið hækkandi. Xavier sagði að þróun í eftirspurn neytenda myndi skipta miklu máli fyrir framvinduna í rekstri félagsins á komandi fjórðungum. „Við þurfum að bregðast við markaðsaðstæðum og koma með nýjungar til að vaxa áfram,“ sagði Xavier. Stjórnendur munu halda áfram að reyna að auka arðsemi þrátt fyrir erfiðar aðstæður, en arðsemi eigin fjár hefur aukist úr 4,6% í 9,6% á árunum 2006-2008. Xavier sagði mikilvægt að leita leiða til að lækka kostnað. Þá sagði forstjórinn að markaðsverðmæti félagsins í evrum talið sé að falla, vegna veikingar krónunnar, þrátt fyrir hækkun á markaðsverðmæti félagsins (ef litið er til síðustu 12 mánaða) á hlutabréfamarkaði hérlendis í krónum talið. Fundurinn, sem var mjög fámennur, var haldinn á Hilton Nordica hótelinu.