Sala Alfesca á síðasta ársfjórðungi var 249 milljónir evra og dróst lítillega saman á milli ára, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Í tilkynningu segir að þrátt fyrir góða jólasölu hafi efnahagssamdrátturinn haft veruleg áhrif á afkomu fjórðungsins. Þar segir einnig að afkoma fjórðungsins litist af veikingu pundsins gagnvart evru og áhrif óhagstæðs gengis hafi orðið til þess að EBITDA, hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, hafi dregist saman um 1,1 milljón evra.

Í tilkynningu segir einnig að samdráttur í EBITDA endurspegli samdrátt í heildarhagnaðarhlutfalli samstæðunnar úr 22,5% í 21,5%. Ástæðan sé aðallega hærri hráefniskostnaður vegna framleiðslu andalifrar og andakjöts sem hafi orðið í kjölfar hækkunar á hrávöruverði sem hafi haldist fram á sumarið 2008.

Þessar upplýsingar byggjast á tölum fyrir annan ársfjórðungs fjárhagsársins, en fjárhagsár Alfesca nær frá 1. júlí til 30. júní og þetta eru því mánuðirnir október til desember í fyrra.

Í tilkynningu félagsins segir að frá lokum 2. ársfjórðungs hafi það greitt upp öll langtímalán og lausafjárstaða þess sé jákvæð um 45 milljónir evra.