Xavier Govare, forstjóri Alfesca, sagði á uppgjörsfundi félagsins sem lauk fyrir skömmu að sterkur fjárhagur, gott viðskiptalíkan og örugg lausafjárstaða væru helstu styrkleikar félagsins, og myndu verða til þess að félagið kæmi enn sterkara út úr núverandi aðstæðum.

Eins og greint var frá í morgun nam tap Alfesca 0,3 milljónum evra á fyrsta fjórðungi fjárhagsárs félagsins, en uppgjörið var birt fyrir opnun markaða í morgun.

Govare segir niðurstöðu fjórðungsins ásættanlega. Hann segir að á fjórðungnum hafi félagið fundið fyrir breyttri kauphegðun neytenda. Skýr merki séu um samdrátt og aukna svartsýni neytenda á öllum helstu mörkuðum félagsins, en að gott viðskiptalíkan og fjölbreytt framleiðsla skili ásættanlegri rekstrarafkomu.

Að sögn Philippe Perrineau, fjármálastjóra félagsins, er fjárhagsstaðan sterk og lausafjárstaðan örugg.

Fyrir hrun íslensku bankanna hafði félagið aðgang að lánalínum upp á 90 milljónir evra en við hrun bankanna lokaðist á hluta af því, um 25-26 milljónir evra. Stjórnendur félagsins telja aðgang að lausu fé þó nægilegan, og að lausafjárvandamál sé ekki til staðar.

Forstjóra félagsins var tíðrætt um erfiðar markaðsaðstæður og sagði sálfræðileg áhrif spila þar inn í. Mikil pressa sé frá viðskiptavinum Alfesca um að félagið hækki ekki verð, þrátt fyrir óstöðugleika og verðhækkanir á hráefnisverði. Govare segir mikilvægt fyrir reksturinn að traust viðskiptavina og neytenda aukist á ný.

Félagið einbeitir sér nú að jólasölunni, en hvernig hún reiðir af skiptir öllu máli fyrir afkomu næsta fjórðungs.

Alfesca er eitt af fáum félögum sem eftir eru í Kauphöll Íslands og fer því ekki varhluta af neikvæðum markaðsaðstæðum. Mikil áhættufælni og gríðarlega erfið staða íslensks efnahagslífs veikir Kauphöllina.

Bréf Alfesca hafa nú fallið í verði um rúm 10% síðastliðna viku. Govare segir verðþróun bréfa félagsins ekki ásættanlega, og að hún endurspegli ekki afkomu og rekstur félagsins.

Aðalfundur félagsins verður haldinn í dag og þar munu stjórnendur leggja til að enginn arður verði greiddur út á þessu ári, vegna sérstakra aðstæðna í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum.