Alfesca hyggst skjóta fimmtu stoðinni undir starfsemina með kaupum á matvælafyrirtæki að því er fram kemur í IntraFish. Xavier Govare forstjóri Alfesca segir að það verði forgangsverkefni á árinu 2010 að auka fjölbreytni í rekstrinum með því að skjóta undir hann fimmtu stoðinni, en fyrirtækið var afskráð í íslensku kauphöllinni í október.

Alfesca er með starfsemi í Frakklandi, Bretlandi og á Spáni. Megin stoðirnar í rekstrinum eru fjórar; þ.e. framleiðsla á reyktum laxi og öðrum fiski, framleiðsla á andalifur og afurðum úr andakjöti, framleiðsla á sósum og ídýfum og framleiðsla á afurðum úr rækju og skelfiski.

Lax stendur undir 54% af sölunni. Govare segir að mjög breytt svið fyrirtækja í tilbúnum réttum og skyndibitum komi til greina varðandi kaup.

„Við þurfum að finna rétt fyrirtæki á réttu verði,” sagði hann í samtali við IntraFish. Hann segir þó að ólíklegt sé að af kaupum á einhverju fyrirtæki í þessum geira verði fyrr en á síðari helmingi ársins 2010. Þá segir hann að það komi alls ekki til greina að selja einhverjar einingar út úr Alfesca.

Fyrirtækið hafði skoðað matvælafyrirtækið Marie sem selt var til bresks félags á síðasta ári. Á þeim tíma stóð yfir endurskipulagning á Alfesca og var ekki talið ráðlegt að fara í kaup á því félagi.