Alfesca gekk í dag frá kaupum á franska fyrirtækinu Adrimex SAS, sem er leiðandi í framleiðslu og sölu úrvalsskelfisks, fyrir 21,2 milljónir evra sem samsvarar um 1,9 milljörðum íslenskra króna að því er kemur fram í frétt fyrirtækisins.

Adrimex er í fremstu röð franskra skelfisksfyrirtækja og leiðandi á ört vaxandi markaði fyrir unnar skelfiskafurðir.

Á síðsta reikningsári sem lauk 30. september síðastliðin nam árssala Adrimex 56,4 milljónum evra sem er ríflega 14% aukning frá árinu á undan. EBITDA félagsins á síðasta ári var 3,35 milljónir evra sem nemur tæpum 300 milljónum íslenskra króna. Í kaupverði er EV/EBITDA margfaldari 6,3. Adrimex rekur tvær verksmiðjur í borginni Nantes en um 120 manns vinna hjá félaginu í fullu starfi.

Á síðustu þremur árum hefur innri vöxtur Adrimex að jafnaði numið 9% en áherslan hefur verið á vinnslu stórrar heitsjávarrækju og þróun virðisaukandi afurða. Meðal helstu afurða Adrimex eru heitsjávarrækjur tilbúnar til neyslu, grillrækjur á teini og í grillbökkum, rækjuhringir og frystar rækjur en afurðirnar eru seldar í þægilegum neytendapakkningum. Afurðir úr heitsjávarrækju nema um 90% af sölu Adrimex en þær eru aðallega seldar frönskum stórmörkuðum.

Áhersla Adrimex á vöruþróun hefur gefið fyrirtækinu afgerandi markaðshlutdeild í frönskum stórmörkuðum, ekki síst í sjálfsafgreiðslufiskborðum sem njóta sífellt meiri vinsælda.

Adrimex nýtur þess að framleiðsla fyrirtækisins er í takt við neyslumynstur þar sem heitsjávarrækjur verða sífellt vinsælli og hagstæðari í innkaupum. Við bætist að neytendur leita almennt eftir hollri matvöru sem fljótlegt er að matreiða en hvort tveggja á ágætlega við um skelfiskafurðir.

Með kaupunum á Adrimex bætist leiðandi framleiðandi með mikil vaxtartækifæri í raðir dótturfélaga Alfesca og mun mynda sterka heild ásamt Labeyrie og Delpierre, leiðandi fyrirtækjum Alfesca í Frakklandi, og auka vöruframboð samstæðunnar. Adrimex mun framvegis hagnast á fjárfestingagetu Alfesca auk þess sem fyrirtækið fær aðgang að þekkingu á sviði framleiðslu og markaðssetningar og öflugum dreifileiðum. Stjórnendateymi Adrimex mun halda áfram við stjórn fyrirtækisins en framkvæmdastjóri þess er Eric Pinoncely.

Í tilkynningu kemur fram að Alfesca hyggst reka Adrimex sem sjálfstætt félag í nánum tengslum við markaðinn og í samræmi við viðskiptalíkan samstæðunnar. Töluverð samlegðaráhrif verða vegna kaupanna, ekki síst hvað varðar hráefniskaup, vöruþróun, vörumerkjastefnu og þekkingu á markaðnum auk samlegðar á sviði stjórnunar.

Xavier Govare, forstjóri Alfesca:
?Þetta er mjög góð fjárfesting fyrir Alfesca. Staða Adrimex á markaði fyrir skelfiskafurðir er mjög sterk og félagið fellur mjög vel að núverandi rekstri Alfesca. Hvort tveggja gerir okkur kleift að styrkja rekstur Adrimex á afar áhugaverðum og ört vaxandi markaði. Adrimex styrkir rekstur okkar í Frakklandi og Bretlandi og fellur vel að þeirri þekkingu sem er til staðar innan samstæðunnar.

Mikilvægi þessarar fjárfestingar verður einnig að skoða í ljósi þess að þetta eru fyrstu fyrirtækjakaup félagsins frá 2004. Adrimex uppfyllir öll skilyrði sem við gerum um kaup á fyrirtækjum og tilkoma þess mun vonandi auka arð hluthafanna. Adrimex eflir eina af meginstoðum samstæðunnar á lykilmarkaði, rennir styrkari stoðum undir fjárhag samstæðunnar og eykur fjölbreytni framleiðslunnar. Tilkoma Adrimex gerir okkur betur í stakk búin að svara aukinni eftirspurn eftir skelfiskafurðum auk þess sem tengslin við Alfesca munu flýta fyrir vexti fyrirtækisins.?