Alfesca hf. hefur ráðið Nadine Deswasière sem framkvæmdastjóra stefnumótunar og þróunar og Antony Hovanessian sem framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar. Ráðning þeirra tekur gildi 3. apríl næstkomandi.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að þessum ráðningum er ætlað að styðja vöxt og þróun samstæðunnar. Bæði Nadine og Antony munu taka sæti í framkvæmdastjórn Alfesa en þau munu hafa aðsetur á nýrri skrifstofu félagsins sem ráðgert er að opna í London í júní. Samfara ráðningunni mun Nadine segja sig úr stjórn Alfesca frá og með 31. mars. Guðmundur Ásgeirsson, varamaður í stjórn, tekur þá sæti hennar.

Jakob Sigurðsson, forstjóri Alfesca, segist afar ánægður með að fá til liðs við félagið jafn reynda og hæfa einstaklinga og Nadine og Antony eru. ?Bæði búa yfir víðtækri starfsreynslu og sérfræðiþekkingu sem nýtast mun framkvæmdastjórn við að ná settum markmiðum um vöxt félagsins."

Nadine Deswasière hefur verið óháður stjórnarmaður í Alfesca frá því í mars 2005. Hún er með 23 ára reynslu af störfum í fyrirtækjum á sviði neytendavöru, lengst af hjá Campbell Soup og Nestlé. Hún starfaði í 16 ár hjá Nestlé í Frakklandi, Sviss, Asíu og Austur-Evrópu. Hún var ábyrg fyrir viðskiptaþróun og fyrirtækjakaupum í höfuðstöðvum Nestlé og varð síðar sviðsstjóri og svæðisstjóri félagsins áður en hún varð framkvæmdastjóri hjá einu af dótturfyrirtækjum Nestlé í Frakklandi með 340 milljóna evra veltu.

Nadine Deswasière er fædd 1960. Hún hlaut meistaragráðu í markaðsfræðum frá háskólanum í Lille í Frakklandi 1982 og lauk námi með láði í félags- og hagfræði frá University of Villeneuve d'Ascq í Frakklandi 1980. Nadine lauk stjórnunarnámi frá IMD í Lausanne í Sviss árið 2000.

Nadine verður ábyrg fyrir þróun og innleiðingu á vaxtarstefnu Alfesca samhliða því sem hún mun samræma markaðssetningu og vöruþróun hjá fyrirtækjum innan Alfesca samstæðunnar.

Áður en Antony Hovanessian réðst til Alfesca var hann aðstoðarforstjóri fjárfestingabankastarfsemi KB banka í London allt frá stofnun hennar 2003. Starfsemi KB banka í London óx hratt á þessum tíma og nær fimmfölduðust tekjurnar. Antony annaðist fjármögnun og fjárfestingar í fyrirtækjum á matvælamarkaði, auk fyrirtækja á neytendamarkaði og tískufyrirtækja. Hann leiddi fjölda samninga á fyrirtækjamarkaði, þar á meðal kaup Alfesca á Labeyrie fyrir 332 milljónir evra í október 2004. Antony er með yfir 10 ára reynslu í fyrirtækja- og markaðsviðskiptum og hefur unnið að samningsgerð í fjölda landa í Evrópu og Asíu.

Antony er fæddur 1969. Hann útskrifaðist frá lagadeild háskólans í Plymouth og var verðlaunaður fyrir frammmistöðu sína þar. Við tók framhaldsnám í Guilford College þar sem hann lauk prófi 1993. Hann fékk lögmannsréttindi sín hjá alþjóðlegu lögfræðistofunni Clifford Chance 1996 með sérhæfingu í fjármálum fyrirtækja og hlutabréfaviðskiptum. Starfaði Antony bæði í London og Dubai. Frá 1999 starfaði hann fyrir fyrirtækjasvið alþjóðlegu lögmannsstofunnar DLA Piper Rudnick Gray Cary þar sem hann var meðeigandi. Þar öðlaðist hann víðtæka reynslu af störfum fyrir matvælafyrirtæki, fyrirtæki í neytendavöru og iðnfyrirtæki. Áður en Antony réðst til KB banka starfaði hann fyrir Barclays Capital, fjárfestingafyrirtæki Barclays Bank. Antony er meðlmimur í UK Securities and Investment Institute.

Hjá Alfesca verður Antony ábyrgur fyrir þróun og innleiðingu ytri vaxtarstefnu félagsins auk þess að styrkja innviði samstæðunnar.