Stjórn Alfesca samþykkti í dag að taka upp árangurstengda kaupréttaráætlun fyrir framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn félagsins, segir í tilkynningu frá félaginu.

Stjórn Alfesca leggur til að árangurstengd kaupréttaráætlun nái til hlutafjár að nafnvirði samtals 300 milljónir íslenskra króna eða sem samsvarar 4,75% af heildarhlutafé félagsins.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að hlutabréf verði veitt framkvæmdastjórum og lykilstarfsmönnum að uppfylltum skilyrðum um árangur þar sem bæði verður miðað við gengi hlutabréfa Alfesca og EBITDA á þriggja ára tímabili frá 1. júlí 2006 til 30. júní 2009.

Áætlunin er háð samþykki hluthafa en henni er ætlað að taka gildi frá deginum í dag. Kaupréttur fyrir fjárhagsárið sem endar 30. júní 2007 verður á grundvelli gengis hlutabréfa í Alfesca við lok viðskipta í dag. Að fengnu samþykki hluthafa verða gefnar nánari upplýsingar um áætlunina.

Skilmálar þessarar kaupréttaráætlunar verða lagðir fyrir hluthafa á hluthafafundi sem haldinn verður 22. maí 2007, segir í tilkynningunni.