Matvælafyrirtækið Alfesca á nú í viðræðum við þar til bær yfirvöld um að fá að skrá hlutafé sitt í evrum, að sögn Antonys Hovanessians, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar félagsins. Fyrirtækið tilkynnti í fyrradag að stór alþjóðlegur erlendur fjárfestir hefði skrifað undir viljayfirlýsingu um að kaupa 12,6% hlut í félaginu, fyrir 5,5 milljarða íslenskra króna.

Hovanessian segir að Alfesca hafi mikinn áhuga á því að fá hlutafé sitt skráð í evrum, til að styðja við þróun þess og veita því betri aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

„Við höfum átt í viðræðum við stjórnvöld um þetta að undanförnu og þau hafa tekið þeim umleitunum vel,“ segir hann. „Skráning í evrum myndi eyða gengisáhættu erlendra fjárfesta. Ef við lítum á flökt íslensku krónunnar og að undanförnu er ljóst að því miður, í alþjóðlegu efnahagsumhverfi nútímans, er gengisáhætta mikil viðskiptahindrun þegar kemur að fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum hlutabréfum,“ segir Hovanessian.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .