Málm- og námuvinnslufyrirtækið Rio Tinto, sem er næststærsti álframleiðandi heims og eigandi Alcan sem rekur álverið í Straumsvík, hyggst auka álframleiðslu sína um 2,6 milljónir tonna.

Í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna segir Jacynthe Cote, framkvæmdastjóri málmvinnslu félagsins, að nú sé verið að fara yfir áform um nýjar álbræðslur og hvernig megi auka framleiðslugetuna með notkun vatnsafls og annarrar tækni, en sem kunnugt er hefur hækkandi orkuverð haft töluverð áhrif á framlegð í álframleiðslu.

Bloomberg segir að horft sé til Íslands, Kanada, Malasíu, Sádi-Arabíu, Óman og Kamerún í þessum efnum og er gert ráð fyrir að áform um aukna álframleiðslugetu Rio Tinto gætu orðið að veruleika frá og með árunum 2011 til 2014.

Haft er eftir Cote að hækkun á framvirkum afhendingarsamningum á áli endurspegli að verð á aðföngum hafi hækkað og sú þróun sé komin til að vera. Hann segir að í ljósi þessa vilji Rio Tinto hraða uppbyggingu á álverksmiðjum sem nota ódýra orku á borð við vatnsafl. Vaxandi eftirspurn og hækkandi framleiðsluverð hefur meðal annars gert það að verkum að heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað mikið undanfarið.

Bloomberg hefur eftir Michael Komesaroff, sérfræðingi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Urandaline Investments, að fram til þessa hafi álframleiðsla Kínverja getað annað umframeftirspurn og það hafi gert að verkum að aðrir hafi ekki aukið framleiðslugetu sína.

Hins vegar er ljóst að niðursveifla er fram undan í álframleiðslu Kínverja og þar eð engar vísbendingar eru um minnkandi eftirspurn telur Komesaroff að álfyrirtæki muni auka framleiðslugetu sína annars taðar.

Bloomberg segir að meðal þeirra framkvæmda sem Rio Tinto íhugi sé að auka framleiðslugetu verksmiðju í Quebec í Kanada í 400 þúsund tonn á ári en upphaflega stóð til að verksmiðjan gæti framleitt 60 þúsund tonn.

Samkvæmt upplýsingum Bloomberg mun Rio Tinto fjárfesta 6 milljarða Bandaríkjadala til uppbyggingar á álbræðslum í Kanada en ástæðan fyrir þeim miklu framkvæmdum er meðal annars sú að fylki landsins eru reiðubúin að bjóða fyrirtækinu vaxtalaus lán auk langtímasamninga um nýtingu vatnsafls.