Í árslok 2008 má búast við því að framleiðslugeta í þremur álverum landsins verði nálægt 800 þúsund tonnum á ári. Öll álfyrirtækin hafa uppi áform um að auka álframleiðslu ýmist með byggingu nýrra álvera eða stækkun álvers sem fyrir er.  Þar má nefna áform um álver Norðuráls í Helguvík, áforma um álver Alcoa á Bakka við Húsavík og til hugsanlegrar stækkunar  álvers  Alcan í Straumsvík. Samtals gæti þessi  aukning orðið álíka mikil eða um 800 þúsund tonn á ári og þannig tvöfaldað ársframleiðsluna. Hún yrði þá, ef þær hugmyndir yrðu að veruleika, 1,6 milljónir tonna á ári um 2015.

Samhliða hafa svo fregnir af öðrum verkefnum skotið upp kolli í fjölmiðlum og verið kynntar stjórnvöldum eins og iðnaðarráðherra hefur upplýst. Þar hefur m.a. verið rætt um tvö álver í Þorlákshöfn, annað á vegum Alcan og hitt á vegum Arctus, og um álver Hydro á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd.  Ef öll þessi áform yrðu að veruleika yrðu á Íslandi framleidd samtals tæplega 2,9 milljónir tonna af hrááli. Það myndi taka mest alla raforkuframleiðslugetu landsins.