Alfreð fór í loftið í Færeyjum í lok ágúst með atvinnuleit í gegnum app og vef, ásamt kerfi sem heldur utan um úrvinnslu umsókna. Nú hafa í kringum þúsund manns hlaðið færeysku útgáfunni niður.

Á vefnum www.alfred.fo hafa hátt í 50 laus störf verið í boði og ný störf bætast við á hverjum degi, að því er kemur fram í tilkynningu.

Færeyjar eru þriðja markaðssvæði Alfreðs á alþjóðlegum vettvangi. Áður var Alfreð búinn að koma sér fyrir í Tékklandi og á Möltu. Í tilkynningu segir að markaðsathuganir gefi til kynna að Færeyjar verði góð viðbót við markaðssvæði Alfreðs.

Halldór Friðrik Þorsteinsson, annar aðaleigenda Alfreðs á Íslandi:

„Við höfum verið að horfa til Færeyja um hríð og létum gera markaðsathugun sem gaf jákvæðar niðurstöður. Í framhaldinu komu aðilar frá Færeyjum að máli við okkur og föluðust eftir sérleyfi þar.“

Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Alfreðs á Íslandi:

„Markmiðið er að tengja saman markaðssvæði Alfreðs í framhaldinu svo að notendur okkar geti kynnt sér störf milli landa og atvinnusvæða. Okkur líst einstaklega vel á færeyska markaðinn og sjáum ýmis tækifæri til að efla tengsl okkar þar með stafrænni tækni. Í ljósi nálægðar og menningar má hæglega horfa á Ísland og Færeyjar sem eitt atvinnusvæði.“