*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 7. apríl 2019 17:31

Algalíf tapaði á ný hjá yfirskattanefnd

Yfirskattanefnd hafnaði kröfu Algalíf Iceland um endurgreiðslu vörugjalds að fjárhæð tæplega 2,5 milljónir króna.

Ritstjórn
Hilmar Bragi Bárðarson

Yfirskattanefnd hafnaði kröfu Algalíf Iceland um endurgreiðslu vörugjalds að fjárhæð tæplega 2,5 milljónir króna. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem nefndin fellst ekki á kröfur félagsins.

Í maí árið 2014 samþykkti Alþingi lög um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf um smáþörungaverksmiðju á Reykjanesi. Samkvæmt lögunum er félagið undanþegið greiðslu ýmissa gjalda. Lögin voru birt í Stjórnartíðindum í byrjun júní 2014. 

Sending sú sem um var deilt í málinu kom til landsins í byrjun maí 2014 áður en lögin tóku gildi. Hafnaði tollstjóri því að fella vörugjöld niður af sendingunni. Algalíf taldi á móti að undanþágan ætti að gilda þar sem gjalddagi gjaldsins var 15. júní 2014 eftir að fjárfestingarsamningurinn tók gildi.

Yfirskattanefnd taldi að ákvæði um greiðslufrest vörugjalda breyttu því ekki að þau væru ákveðin við tollafgreiðslu hverju sinni. Ekkert kæmi fram í lögum um fjárfestingarsamninginn að undanþágurnar ættu að gilda afturvirkt og kröfum Algalíf því hafnað. 

Sem fyrr segir er þetta í annað sinn sem Algalíf er gert afturreka hjá nefndinni. Fyrir jól krafðist það niðurfellingar á stimpilgjaldi, fjárhæð 4,2 milljónir króna, vegna sölu á fasteign. Síðasta sumar seldi félagið Keflavík Properties fasteignir sínar en eigandi beggja félaga er hinn sami.

Í samningi var kveðið á um að Algalíf myndi annast greiðslu stimpilgjaldsins. Yfirskattanefnd taldi his vegar að gjaldskyldur aðili stimpilgjalds væri kaupandi hennar. Ekki væri hægt að semja sig undan þeirri skyldu.

Stikkorð: skattar Algalíf