Líftæknifyrirtækið Algalíf er nú vottað kolefnishlutlaust í samræmi við umhverfisstefnu fyrirtækisins sem kynnt var í fyrra, en í tilkynningu segir að vottunin sé hluti af áralangri vegferð Algalífs til sjálfbærni. Meðal annarra alþjóðlegra fyrirtækja með þessa vottun eru tæknifyrirtækin Microsoft og Logitech, og fjölmiðlarisinn Sky.

Algalíf framleiðir plöntuþörunga með ljóstillifun í hátæknilegu rörakerfi þar sem öllum umhverfisþáttum er stýrt nákvæmlega. Helstu aðföng til framleiðslunnar eru hreint vatn og græn raforka úr jarðvarma fyrir gróðurljós af nýjustu gerð.

Öll ökutæki félagsins eru auk þess græn, aðföng eru umhverfisvottuð og rekin er víðtæk sorplágmörkunarstefna. Algalíf notar jafnframt ekkert jarðefnaeldsneyti við framleiðslu sína, að því er kemur fram í tilkynningu.

Núverandi húsnæði Algalífs að Ásbrú í Reykjanesbæ er 5.500 m² en verið er að byggja 7.000 m² nýbyggingu við hlið núverandi framleiðsluhúsnæðis. Hjá Algalíf vinna nú um 50 manns en verða um 80 þegar allt verður komið á fullan skrið í báðum byggingum á næsta ári.

Orri Björnsson, forstjóri Algalífs:

„Jafnvel þótt við séum í grunnin eitt af grænustu fyrirtækjum landsins, þá liggur talsverð vinna í því að fá jafn virta alþjóðlega vottun. Við erum öll stolt af því að vera grænt fyrirtæki sem leggur sitt af mörkum til að leysa þann umhverfisvanda sem að steðjar".