„Ég held að algengast sé að hvort sem það séu forstöðumenn ríkisstofnana eða þeir sem sjá um innkaupin séu að leita eftir bestu verðunum og þá oftast undir rammasamningum ríkiskaupa,“ segir Magnús Guðmundsson, formaður Félags forstöðumanna ríkisins. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um húsgagnakaup Fjármálaeftirlitsins.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, sagði frá því í dag að Fjármálaeftirlitið hefði í september keypt tvo fundarstóla fyrir skrifstofu Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra stofnunarinnar, sem kostuðu samtals 792 þúsund krónur. Stólarnir eru þekkt hönnunarvara sem heitir Svanurinn. Þeir voru að sögn upplýsingafulltrúa FME síðasti liðurinn í 66 milljóna króna endurnýjun á húsbúnaði sem hófst árið 2011 þegar ríkisstofnunin flutti í nýtt húsnæði að Katrínartúni 2.

Í svari Fjármálaeftirlitsins segir að við innréttingu nýja húsnæðisins hafi verið unnið samkvæmt innkaupareglum Ríkiskaupa og niðurstaðan hafi verið sú að taka tilboði lægstbjóðanda sem var Á. Guðmundsson.

Þá segir að við endurnýjun á húsbúnaði við flutning á skrifstofum Fjármálaeftirlitsins hafi megin áhersla verið lögð á að skipta við íslensk iðnfyrirtæki.  Annað áhersluatriði hafi verið að húsgögn væru einföld og stílhrein og stæðust tímans tönn. Það sjónarmið hafi verið ráðandi við val á stólunum.