„Það er mjög algengt að menn óski eftir því að flýta afplánun sinni. Ef menn óska eftir því þá reynum við að verða við því. Það er oft hægt,“ segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun.

Eins og fram hefur komið óskaði Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, eftir því að hefja afplánun tveggja ára dóms Hæstaréttar frá í febrúar vegna innherjasvika þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir rúmar 190 milljónir króna skömmu áður en bankinn féll.

„Eftir því sem dómarnir eru lengri þá setjum við þá í forgangsröð,“ segir Erlendur og bendir á að tveggja ára dómur sé í lengri kantinum.

Erlendur segir margar ástæður geta verið fyrir því að fólk með dóma á bakinu óski eftir því að flýta afplánun sinni.  „Menn eru þá búnir að gera ráð fyrir því að losna út á ákveðnum tíma, vegna vinnu eða fjölskyldumála. Aðrir vilja hespa því af og við getum oft orðið við því. Sumir vilja láta fresta þessu og aðrir láta ekki ná í sig. En meirihlutinn vill flýta afplánun sinni,“ segir hann.

Baldur situr nú í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg en verður síðan fluttur annað hvort að Kvíabryggju eða Bitru. Hann hefur kært dóm Hæstaréttar til Mannréttindadómstóls Evrópu.