*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 31. maí 2020 11:03

„Alger sprenging í pallaefni“

Pallasmíði Íslendinga er að ná nýjum hæðum. Skipsfarmar af timbri seljast upp í byggingavöruverslunum.

Höskuldur Marselíusarson
SigurðurSala á fúavörðu timbri hefur tvöfaldast milli ára að því er Brynjar Pálsson forstjóri Byko, Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar og Ásgeir Bachmann framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi segja allir þrír..
Sigurþór Hallbjörnsson

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, segir eftirspurnina eftir fúavörðu timbri í pallagerð hafa aukist svo mikið að skipsfarmur sem í venjulegu árferði hefði dugað sem mánaðarskammtur sé langt komið með að klárast.

„Við höfum verið að lenda í vöruskorti á ákveðnum lengdum af trimbri, en okkur hefur tekist að bæta í pantanir og draga til okkar vörur á mjög skömmum tíma því við erum með töluvert mikinn sveigjanleika. Þetta er fyrst og fremst pallaefni, en þar eru alltaf löngu lengdirnar vinsælastar. Í maímánuði hefur vöxturinn verið 120% milli ára,“ segir Sigurður Brynjar.

„Einnig höfum við bætt við mörgum tímum hjá landslagsarkitektinum, hann er mikið bókaður, sem og hjá framkvæmdaráðgjöfunum hjá okkur, því við finnum mikla eftirspurn eftir því að fá leiðbeiningar um framkvæmdir. Ætli það sé ekki svona viku til tveggja vikna bið hjá þeim núna. Ég hef alltaf sagt að við erum í samkeppni við ferðaskrifstofurnar sem skýrir mikinn vöxt í framkvæmdum heima fyrir hjá fólki, þegar margir höfðu lagt fyrir pening fyrir ferðalögum sem ekki verður farið í.“

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, tekur í sama streng. „Það hefur verið veruleg eftirspurn undanfarið eða frá kannski miðjum apríl, þegar Covid-smitunum fækkaði, ásamt því að það hefur verið mjög hagfellt veður hérna síðustu vikur,“ segir Árni sem segir ljóst að fólk hafi meiri tíma umleikis.

„Fólk er farið að sinna viðhaldi og ganga í verkefni sem það hefur verið að fresta, en það var aðeins minnkun framan af samkomubanni í mars. Síðan hefur verið alger sprenging í pallaefni í búðunum, þetta er nánast tvöföldun í sölu milli ára. Við erum að losa í þessari viku stórt skip svo fyrir helgina verður komin alveg reiðinnar býsn af brakandi fersku timbri í verslanirnar. Við erum að tala um 2 þúsund rúmmetra, svo við ætlum að vona að það endist okkur aðeins.“

Ásgeir Bachmann, framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi, segir aukna eftirspurn eftir sumartengdum vörum og viðhaldsvöru núna ekki vera séríslenskt fyrirbæri.

„Það hefur verið rosaleg sprenging á sölu sumarhúsgagna í Evrópu, sem og timbri, þá sérstaklega í Skandinavíu,“ segir Ásgeir sem upplifir að fólk sé að leita aftur í upprunann. „Við erum búin að þrefalda sölu á grillum, rúmlega tvöfalda sölu á pallaefni, og á pallaolíu, og nánast þrefalda sölu á heitum pottum. Fólk er að skoða grunninn sinn betur og hvað það þurfi að gera til að hlúa að sér og sínu heimili.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.