AGR Dynamics ehf. hagnaðist um 33,8 milljónir króna árið 2019 sem er nánast alger viðsnúningur frá 35,3 milljóna króna tapi ársins áður.

Tekjur félagsins voru um 996 milljónir sem er 47% aukning frá árinu áður þegar þær voru 677,6 milljónir króna, en rekstrargjöldin jukust um 32% milli ára, úr 721,9 milljónum í 952 milljónir króna. Þar af jukust launa og launatengd gjöld um fjórðung, úr 600,8 milljónum króna í 749,5 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam því 136,9 milljónum og ríflega þrefaldaðist á milli ára, en hann var 45,9 milljónir árið áður, meðan rekstrarhagnaðurinn (EBIT), fór úr því að vera neikvæður um 34 milljónir króna í 46 milljónir í plús.

Eigið fé félagsins jókst um 11,4% á árinu, fór úr 273 milljónum í 304 milljónir, meðan skuldirnar jukust um 38,3%, úr 180 milljónum í 250 milljónir, svo eignirnar jukust um 22%, úr 453 milljónum í 553 milljónir. Þar með lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 60,2% í 54,9%.

Með 70 starfsmenn á Íslandi

AGR þróar hugbúnaðarlausnir fyrir gerð söluáætlana og innkaupa, en yfir 200 viðskiptavinir í 18 löndum nýta sér lausnir fyrirtækisins sem frá stofnun árið 1997 hefur þróað eigin lausnir til hagræðingar í rekstri aðfangakeðjunnar.

Hjá félaginu starfa um 70 starfsmenn á Íslandi, Bretlandi, Danmörku og Kanada við ráðgjöf og þjónustu til yfir 200 viðskiptavina á sviði innkaupa, birgðastjórnunar og söluáætlana. Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak er stærsti hluthafinn í AGR Dynamics.

„Við gerum ráð fyrir áframhaldandi vexti á okkar helstu mörkuðum, sérstaklega í ljósi þess að viðskiptavinir geta náð fram miklum kostnaðarlækkunum með innleiðingu AGR lausnanna,“ segir Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri AGR Dynamics.