*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Fjölmiðlapistlar 9. desember 2018 13:09

Algert klausturfokk

Fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins fjallar um klaustursmálið.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Hér var í liðinni viku drepið á hvernig skammæ hneyksli og uppnám geta lagt íslenskt þjóðfélag á hliðina um stundarsakir, en blaðið var varla farið í prentun þegar nýtt og ferskt dæmi kom um það. Óþarfi er að rekja Klausturmálið nánar hér, um það hefur nóg verið fjallað, en umræður og orðbragð við borð þingmannanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar hafa vakið hneykslan og hörð viðbrögð alþjóðar, þ. á m. þeirra sem sátu samdrykkjuna í Klaustri.

Fyrstu viðbrögð Sigmundar Davíðs vöktu einnig nokkra undrun, jafnvel bræði, því honum þótti sennilegt að sími einhvers við borðið hefði verið hakkaður og taldi alvarlegast ef á Íslandi væru stundaðar hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. Hann sætti litlu minni fordæmingum fyrir það en hitt sem sagt var eða ósagt við borðið.

Vandinn er sá að Sigmundur Davíð hefur rétt fyrir sér um alvarleika þess að samtöl séu hleruð og umsvifalaust gerð að fjölmiðlaefni.

Hér verður ekki fjallað um það sem sagt var í Klaustri, inntak orðanna eða innræti þeirra, sem þar létu dæluna ganga. En það er um nóg að fjalla hvað fjölmiðlahliðina áhrærir og fyrrnefndan alvarleika.

***

Síðastliðinn miðvikudag tóku DV og Stundin að segja fréttir af samræðum þingmannanna í Klaustri rúmri viku áður. Upphaflega var frekar naumt sagt frá, enda greindu miðlarnir frá því að margt, sem þar hefði verið sagt, ætti ekki erindi við almenning, og eins vildu þeir ekki nafngreina alla þá, sem um var rætt við borðið. Í fyrstu var ekki ljóst hvernig upptökurnar voru til komnar, en ekki leið á löngu uns það var upplýst að öðrum gesti á staðnum, sem sat ekki langt frá, hefði blöskrað lætin og orðræðan og því hafið upptöku á síma sínum, sem hann kom svo á framfæri við DV, Stundina og Kvennablaðið nokkrum dögum síðar undir dulnefninu Marvin.

Ýmsir hafa orðið til þess að efast um réttmæti þessara athafna Marvins, en fáir svo sem fordæmt þær heldur, í ljósi viðbragðanna og þeirrar knýjandi nauðsynjar að kjósendur viti hvern mann þingmenn þeirra hafi að geyma, hvort sem öl er nú innri maður eða annar maður.

Áður en lengra er haldið er sennilega rétt að velta fyrir sér nokkrum spurningum, eins og hvort það skipti máli hver tók samtölin upp. Þætti fólki það jafnsjálfsagt ef þar hefði verið flokksbroddur Pírata á ferð, þingmaður Framsóknarflokksins eða einhver sem teldi sig eiga persónulegra harma að hefna? Eins má spyrja hvort upptakan og fréttaflutningur af henni þætti jafnsjálfsagður ef þar hefðu ekki verið stjórnmálamenn við borðið, heldur til dæmis verkalýðsforingjar, landsliðskonur í fótbolta eða hópur rithöfunda. Fjölmiðlarýnir hefur engin svör á reiðum höndum um það, en þykir augljóst að það sé ekki alveg sama hverjir áttu í hlut. Sem er vísbending um að þetta sé ekki allt klippt og skorið.

***

Nú er það svo, að hleranir eru einfaldlega óheimilar að lögum og varla er nokkrum blöðum um það að fletta að Marvin lá á hleri. Ekki meðan hann sat undir skvaldrinu á næsta borði og heyrði meira en hann vildi heyra, heldur um leið og hann ákvað að taka samræðurnar upp. Einu gildir hversu honum blöskraði orðbragðið, bonus pater feðraveldisins hefði fært sig um set, eða beðið liðið um að hafa lægra, en ekki hafið upptöku. Það voru ekki eðlileg viðbrögð, jafnvel þó svo að nafntogaður og umdeildur maður hafi haft hátt.

Á móti má segja að þingmennirnir fóru ákaflega óvarlega. Hefðu þeir viljað halda umræðunni algerlega fyrir sig, þá hefðu þeir ekki átt að sitja lengi á opinberum veitingastað og ekki sparað róminn eða svigurmælin.

Þetta skiptir máli, því hér veltur töluvert á ætlan og væntingum fólks til næðis, friðhelgi og einkalífs. Það sem fólk segir í ræðustól er ljóslega til þess að allir heyri, en það sem sagt er innan veggja heimilisins er ósennilega ætlað fleirum. Veitingastaðir eru þar einhvers staðar mitt á milli; fólk lítur á þá sem afdrep og ætlast vanalega til trúnaðar undir rós og yfir glasi. En það getur fráleitt litið svo á að ekkert heyrist á milli borða í almenningnum, krár raunar alræmdar fyrir að fólk heyrir þar ýmislegt út undan sér, segir jafnvel sumt beinlínis í þeim tilgangi.

***

Þegar blaðamenn eiga í hlut gilda svipuð lögmál, en þó ekki hin sömu, þau eru strangari vegna hins sérstaka eðlis fjölmiðla. Blaðamaður getur þannig vel heyrt eitthvað út undan sér, en hann getur ekki gert sér frétt úr því sisona. Hann getur hins vegar vel notfært sér þá vitneskju sem vísbendingu um frétt, sem hann þarf þá að grafast nánar fyrir um, staðfesta, leita sjálfstæðra heimilda o.s.frv. Upphaflegu orðin eru hins vegar ekki til þess að hafa eftir, hvað þá að orðlagið sé sjálf fréttin.

Það er vegna hins sérstaka hlutverks fjölmiðla við að greina opinberlega frá staðfestum fréttum, að leiða sannleikann í ljós. Það hlutverk geta fjölmiðlar ekki rækt með því að fara sjálfir fram með undirferli eða vélum.

Þess vegna er kveðið á um það í siðareglum að blaðamenn villi ekki á sér heimildir, að þeir kynni sig, miðilinn og erindið.

Um þetta eru allir góðir blaðamenn sér vel meðvitaðir. Það eru stjórnmálamenn raunar líka. Þeir eru flestir skrafhreifir, en gera sér einnig góða grein fyrir áhrifum og afleiðingum orða. Þess vegna taka þeir jafnan fram hvað sé sagt í trúnaði, hverju megi greina frá, hvað megi hafa eftir þeim eða „kunnugum“, sem er dulmál um að næsti nafngreindi maður á undan í fréttinni hafi sagt það, en án þess að herma megi upp á hann. Þetta getur verið flókinn dans, en hann er nauðsynlegur í því óræða væntingaspili sem pólitíkin er. 

***

Íslensk lög um upptökur eru bæði skýr og ströng. Það er óheimilt að taka upp samtöl nema fyrir liggi upplýst samþykki allra hlutaðeigandi. Í ýmsum öðrum löndum þykir duga að samþykki eins liggi fyrir, þannig að þau girða í raun aðeins fyrir hlerun þriðja aðila.

Á Íslandi er raunar gert ráð fyrir undantekningum, ef viðmælandi má gera ráð fyrir upptöku, svo sem eins og í neyðarsímum, hjá fjármálafyrirtækjum eða annars staðar, þar sem sjálft símtalið er til heimildar.

Menn eru ekki á einu máli um hvort blaðamenn falli þar undir. Þeirra er ekki sérstaklega getið í lögunum, en blaðamenn hafa litið svo á að svo fremi sem þeir kynni sig og erindið megi viðmælendum vera ljóst að samtalið kunni að vera hljóðritað. Um þetta hafa ekki fallið dómar, svo menn eru þar á eilítið gráu svæði, en hvað sem því líður er einnig ljóst að blaðamenn mega ekki notfæra sér upptökurnar með hvaða hætti sem er. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar líkt og minnisnótur, blaðamanni til hægðarauka og til þess að gæta megi að rétt sé eftir haft.

Slíkar upptökur blaðamanna eru ekki birtar sem viðtal án þess að viðmælanda sé gerð sérstök grein fyrir því fyrirfram. Rísi ágreiningur um hvað var sagt getur blaðamaður hins vegar vísað til upptökunnar, jafnvel birt viðeigandi bút ef í harðbakkann slær.

***

Allt þetta varðar samtöl, sem blaðamaður á sjálfur í. Svo háttaði ekki í Klaustri. Þar var enginn blaðamaður og Marvin var ekki þátttakandi í misheppnaðasta trúnó Íslandssögunnar.

Að öllu virtu sýnist augljóst að ritstjóri hefði aldrei sent blaðamann á veitingastað þeirra erinda að taka upp samtal á næsta borði. Eins má telja afar ósennilegt að nokkur ritstjóri hefði tekið í mál að blaðamaður mætti gera frétt úr upptöku, sem hann hefði sjálfur og ótilkvaddur gert í hita leiksins við háreysti stjórnmálamanna á öldurhúsi. Breytir öllu að hana gerði maður úti í bæ, hvort sem mönnum finnst hann árvökull eða hnýsinn?

Af fyrstu viðbrögðum miðlanna blasir við að ritstjórarnir voru á báðum áttum, en þegar reiðibylgjan reis og smellirnir smullu inn virðast þær efasemdir hafa dofnað. Það er skiljanlegt, en ekki endilega rétt. Það þurfa að koma til einhverjar mjög knýjandi ástæður til þess að fjölmiðill geri sér fréttamat úr efni, sem hann myndi ekki leyfa blaðamanni að afla.

Meginreglan er sú, að þrátt fyrir að blaðamaður heyri eða verði áskynja um svona samtal, þá má hann ekki gera sér mat úr upptökunni, hvað þá birta hana. En hann mætti sem fyrr segir láta hana verða sér kveikju að frétt, sem hann ynni og segði í samræmi við viðurkennd vinnubrögð.

Jafnvel þó svo að blaðamaður hafi hvergi komið nálægt hleruninni og aðeins fengið hana í hendur eftir á – eins og hér háttaði – þá vakna svo mörg vandamál, svo mikill vafi um vinnubrögð fjölmiðla, að það er ekki óhætt að fjölmiðill notfæri sér upptökurnar með þessum hætti.

Auðvelt væri að saka fjölmiðla um að hafa fengið einhvern nægilega fjarlægan eða nægilega nafnlausan til þess að liggja á hleri fyrir sig og þykjast ekkert vita. Og það væri auðvelt fyrir óvandaða fjölmiðla að koma því í kring, nákvæmlega þannig. Vilja menn eiga það aðeins undir orðum þeirra og þess lagaskjóls, sem fjölmiðlar hafa varðandi trúnað við heimildarmenn? Það er efamál og hættuspil fyrir fjölmiðla.

Setja má málið upp með öðrum hætti: Ef Marvin hefði ekki tekið ósköpin upp og síðan sent miðlunum, heldur streymt málskrafi þingmannanna beint til fjölmiðla, þannig að þeir hefðu sjálfir legið á hleri, þó um meðalgöngumann væri, þætti það þá alveg sjálfsagt? Afar hæpið er að miðlarnir hefðu fellt sig við það og nær útilokað að þeir hefðu gert sér mat úr með sama hætti.

***

Þetta með tæknina skiptir máli. Ein afleiðing vorrar ágætu upplýsingaaldar er sú að ýmissar nýbreytni hefur gætt í blaðamennsku við úrvinnslu gagna hvers konar. Þar á meðal úr gagnalekum og þess eru dæmi að fréttir séu unnar úr illa fengnum gögnum, þó að hefðbundnir fjölmiðlar hafi yfirleitt ekki haft frumkvæði að öflun þeirra (talhólfahlerun breskra slúðurblaða fyrir nokkrum árum er augljós undantekning). Svo mætti auðvitað fjalla í löngu máli um Wikileaks, þó að áhöld séu uppi um hvort þar ræði um eiginlegan fjölmiðil.

Þetta verður æ veigameira álitaefni eftir því sem upplýsingabyltingunni vindur fram og netsporin liggja um allar trissur. Minna má á að í Klaustri – líkt og á fjölmörgum veitingastöðum og verslunum öðrum –  eru eftirlitsmyndavélar og viðvörun við innganginn um að upptaka sé í gangi. Hefði þótt í lagi ef Klaustur hefði komið upptökunum af gestum sínum á framfæri við fjölmiðla? Hvað ef einhver hefði hakkað sig inn á upptökurnar og komið til fjölmiðla?

Eftir því sem næst verður komist tók Marvin umræðurnar upp á snjallsíma sinn, þar sem hann sat á nálægu borði, en minna má á (líkt og SDG hafði áhyggjur af) að við erum nær öll með snjallsíma á okkur og þeir eru margir síhlustandi fyrir hönd Alexu og Siri, Cortana og Google, senda frá sér upplýsingar um staðsetningu og hvaðeina. Eftir því sem raddgreiningu og gervigreind fleygir fram mun áhættan á misnotkun þessarar tækni ekki minnka.

Hugsanlega mun samfélagið breytast á þann hátt, að fólk kippi sér ekki upp við það að allt sem það segir og gerir kunni að birtast á opinberum vettvangi, að væntingar til trúnaðar minnki. En um leið getum við síður vænst hreinskilni, hvort heldur er í „einkasamtölum“ eða í hinu sem menn segja upphátt og opinberlega, ef það getur allt legið fyrir alþjóð, alltaf og endalaust.

Hvað mun þá um hin eiginlegu, ströngu einkamál? Í samtölunum í Klaustri var vikið talsvert að kynþokka og kynhegðun. Á það allt erindi við almenning eða aðeins þegar stjórnmálamenn eiga í hlut? Eða væri það matsatriði byggt á því að aðeins verði sagt frá rausinu og grobbinu, níðinu og lyginni, en ekki hinu sem meiri fótur er fyrir?

Það er umhugsunarefni, bæði fyrir fjölmiðla og almenning. Hvar á að draga línurnar, hvað á erindi í fréttir og hversu langt mega fjölmiðlar ganga við öflun þeirra og úrvinnslu?

***

Hugsanlega er þetta þó allt tal um keisarans skegg. Varla er að efa að samtölin hefðu vakið sömu athygli og umtal þó Marvin hefði einfaldlega dreift vefslóðinni að upptökunum án þess að gera fjölmiðlum viðvart. Og hefðu fjölmiðlar þá bara látið eins og þeim kæmi þetta ekki við? Auðvitað ekki.

***

Að allt öðru. Í liðinni viku sendi Ríkisútvarpið frá sér fréttatilkynningu um úrskurð Fjölmiðlanefndar, áður en úrskurðurinn hafði verið birtur. Af fréttatilkynningunni að dæma var RÚV í toppmálum, bara með eina pínulitla milljón króna í sekt, í engu tekið undir gagnrýni á stofnunina og haft eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra að hann væri mjög sáttur! 

Í tilkynningu Fjölmiðlanefndar kvað hins vegar við annan tón, að úrskurður hefði fallið um að RÚV hafi brotið reglur um kostun í aðdraganda heimsmeistarakeppni í fótbolta og jafnframt brotið lög með ófullnægjandi birtingu á gjaldskrá fyrir auglýsingar og kostun vegna HM.

Það gengur ekki að Ríkisútvarpið sé að senda frá sér tilkynningar til fjölmiðla, beinlínis í þeim tilgangi að afvegaleiða almenning. Það er gróf misnotkun á því trausti sem fjölmiðillinn nýtur.

***

Á mánudag fór fram útför Péturs Gunnarssonar blaðamanns, sem lést úr krabbameini langt um aldur fram. Segja má að honum hafi verið fjölmiðlun í blóð borin, sonur Gunnars Eyþórssonar fréttamanns og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur (Péturssonar þular) þulu. Þrátt fyrir þá römmu taug til Ríkisútvarpsins helgaði Pétur sig blaðamennsku, fyrst á Morgunblaðinu, síðar á Fréttablaðinu og víðar, þar á meðal hér á Viðskiptablaðinu.

Pétur var alvörugefinn blaðamaður, mjög vandvirkur, átti létt um skrif og skrifaði bæði skýran og lifandi stíl. Hann átti auðvelt með að greina aðalatriðin í hverju máli og bjó yfir nokkru innsæi, var prýðilegur mannþekkjari og hafði gott fréttanef; gáfaður, vel lesinn og íhugull. Ekki síst skipti það þó máli, að hann hafði ríkan skilning á eðli blaðamennsku og nauðsyn agaðra vinnubragða, sem hann tamdi bæði sér og öðrum

Fjölmiðlarýnir þakkar Pétri samfylgdina og vottar fjölskyldu hans innilega samúð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is