*

laugardagur, 25. janúar 2020
Innlent 24. september 2018 19:05

„Algjörlega galin niðurstaða“

Forstjóra Ölgerðarinnar finnst hæstiréttur ekki hafa metið þau rök sem Ölgerðin færði fram nægjanlega vel í dómsmáli gegn skattayfirvöldum.

Júlíus Þór Halldórsson
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, hefur ýmislegt út á dóm hæstaréttar að setja.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segist ekki ósáttur við úrskurð Ríkisskattstjóra – sem varðar frádráttarbærni hluta fjármagnskostnaðar félagsins og hæstiréttur staðfesti í gær – sem slíkan, en aðalkrafa Ölgerðarinnar í málinu fól í sér 583 milljóna króna endurgreiðslu auk dráttarvaxta.

Það sé hinsvegar „galin niðurstaða“ að hvorki hafi verið fallist á vanhæfi Aðalsteins Hákonarsonar, forstöðumanns eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra, né að rekstrarlegar ástæður hafi verið fyrir sameiningu Ölgerðarinnar og Daníeli Ólafssyni ehf. „Það voru rekstrarlegar forsendur til staðar, við vorum að sameina þessi tvö félög til að ná verulegri samlegð í rekstri. Mér finnst hæstiréttur ekki hafa kafað ofan í málið og metið þau augljósu rök, að okkar mati, sem við færðum fram. Ég er ekki að mótmæla því í sjálfu sér að þessi fjármagnsgjöld séu ekki frádráttarbær, það er löngu komin niðurstaða í það mál.“

Vanhæfi Aðalsteins hafi hinsvegar verið allt að því staðfest af Ríkisskattstjóra. „Okkur fannst vera borðleggjandi að hann væri vanhæfur í þessu máli.“

Sagði skuldsetta yfirtöku líklegri ástæðu en aukna skattlagningu
Ölgerðin sagði undir lok árs 2009 upp hátt í 40 starfsmönnum, að sögn vegna vænts samdráttar í eftirspurn, sem rekja mætti meðal annars til hækkunar skatta og vörugjalds. Aðalsteinn sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 nokkrum dögum síðar að vandi Ölgerðarinnar væri væntanlega að meira leyti tilkominn vegna skuldsettrar yfirtöku en af völdum skattanna.

Ummælin voru harðlega gagnrýnd af Ölgerðinni, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Jón Steindór Valdimarsson, þáverandi framkvæmdastjóri SI, sagði meðal annars: „Hver trúir því eftir þetta að eftirlitsdeild Ríkisskattstjóra fari hlutlaust með málefni Ölgerðarinnar undir stjórn forstöðumannsins sem vænir stjórnendur beinlínis um að fara með lygimál.“

4 árum síðar, í lok árs 2013, úrskurðaði Ríkisskattstjóri að fjármagnskostnaður Ölgerðarinnar sem til var kominn vegna samruna Límonaðis ehf, Daníels Ólafssonar ehf. og Ölgerðarinnar, og hafði verið talinn til frádráttar skattstofni frá 2008, teldist ekki frádráttarbær kostnaður.

Þá hafi tímafrestur endurákvörðunar verið liðinn, þar sem gögn málsins hafi legið fyrir og 5 ár verið liðin þegar Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð sinn um endurákvörðun. „Skattstjóra er að fullu kunnugt um að við vorum með öfugan samruna og nýttum okkur þessi vaxtagjöld, samt er ekkert aðhafst í þessu máli fyrr en 2013. Þetta lá alltaf ljóst fyrir í öllum okkar skattskýrslum nákvæmlega hvernig þetta var.“ segir Andri, og bætir við að af viðtalinu við Aðalstein sé ljóst að embættinu hafi verið kunnugt um ráðstöfun fyrirtækisins. „Við viljum meina að fyrningarfresturinn hafi byrjað að telja niður þarna. Við náttúrulega væntum þess að fyrst það var ekkert búið að aðhafast í þessu máli frá 2009 eftir að hann vísar þarna beint í okkur, þá sé þetta fyrnt og þeir hafi fallið frá því að enduráleggja.“

Deilt um hvenær Aðalsteinn lét af störfum
Ríkisskattstjóri vildi hinsvegar meina að hæfi Aðalsteins væri málinu óviðkomandi þar sem hann hafi látið af störfum sem forstöðumaður eftirlitssviðs í febrúar 2013. Ölgerðin benti hinsvegar á að embættið hafi sagt vinnslu mála af þessu tagi byggja á yfirgripsmikilli greiningarvinnu gagna. Því sé ljóst að þeirri vinnu hafi verið lokið hjá eftirlitssviði áður en Aðalsteinn lauk störfum. Þar að auki hafi Aðalsteinn sent lögmanni Ölgerðarinnar tölvupóst í upphafi árs 2014, þar sem fram hafi komið að hann hafi kynnt sér inntak andmælabréfs Ölgerðarinnar frá því í desember 2013.