Heildartekjur Icelandair Group árið 2007 voru 63.5 milljarðar króna en voru 56.1 milljarður árið á undan. EBITDAR árið 2007 var 11.1 milljarður króna en 10.0 milljarður króna árið 2006. Heildartekjur á fjórða ársfjórðungi voru 15.3 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi 2007 en voru 12.6 milljarðar á sama tíma í fyrra og aukast um 22% á milli ára.

Hagnaður félagsins eftir skatta árið 2007 var 257 milljónir króna samanborið við 2.6 milljarða króna hagnað 2006, þ.e. aðeins um einn tíundi af því sem hann var árið áður. Tap félagsins eftir skatta á fjórða ársfjórðungi 2007 var 780 milljónir króna samanborið við 551 milljón króna tap á sama tíma í fyrra.

„Þarf ekki að hafa um það mörg orð, að slík niðurstaða er algjörlega óviðunandi,” sagði Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair á aðalfundi félagsins áðan.

Hann sagði ennfremur að afkoma Icelandair sem flugfélags væri langt í frá að vera ásættanleg. „Icelandair er móðurskipið sem ber uppi stærstan hluta af veltu samstæðunnar. Að afkoma þess rekstrar sé ekki að skila meiru en raun ber vitni er ekki hægt að sætta sig við til frambúðar.”