Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, segir vanta sárlega íslenska fjárfesta sem séu tilbúnir að fylgja eftir fjárfestingum í sprotafyrirtækjum eftir að þau ná vissri stærð. Þetta kom fram í máli Guðmundur á fundi Samtaka iðnaðarins um sprotafjárfestingar.

Fjölmargir englafjárfestar séu á markaðnum sem hjálpi félögum í upphafi og leggi til fyrstu milljónirnar. Þá séu nokkrir framtakssjóðir sem styðji við félög með 100 milljóna til eins milljarðs króna fjárfestingu. „Eftir það er ekkert, það er algjört gat.“

Grátlegt miðað við fjármagnið í landinu

„Miðað við það fjármagn sem er til á Íslandi er alveg grátlegt að það sé ekki til meira af stofnanafjárfestum sem eru búnir að leggja hluta af sínu fjármagni í svona vaxtafjárfestingar þar sem þeir geta verið að leggja frá 500 milljónir og upp í þrjá milljarða og jafnvel upp í fimm, sex sjö milljarða.“

Ástæðan sé fyrst og fremst áhættufælni. „Ég held að það sé að koma fólk inn lífeyrissjóðakerfið sem er farið að horfa meira í þessa átt. Hingað til hafa lífeyrissjóðir ekki vilja snerta við neina svona og haft mjög litla heimild til að fjárfesta í svona félögum. Það er spurning hvernig hægt sé að skapa lagaumhverfi til að breyta því,“ segir Guðmundur.

Sjá einnig: Controlant á spjöld sögunnar

Þeir framtakssjóðir sem hafi bolmagn í að fjárfesta slíkum upphæðum í einstaka félögum hafi fremur valið að eignast ráðandi hlut í innlendum félögum í stað þess að leggja fé í fyrirtæki í miklum vexti og fá þá minni hlut í staðinn.

Guðmundur vonar að þetta sé að breytast enda sé það mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að hér verði til stór og öflug tæknifyrirtæki. Þar séu Marel, Össur og CCP séu alltaf nefnd til sögunnar en ekkert nýtt slíkt fyrirtæki hafi orðið til á síðustu árum.

„Það hafa ekki komið fleiri svona stórfyrirtæki á síðustu tíu árum. Það er ekki það að hugmyndirnar séu ekki til og fyrirtækin ekki til heldur fara þau úr landi þegar þau hafa náð ákveðinni stærð því að fjárfestingaumhverfið fylgir ekki með. Til að byggja upp þessa fjórðu stoð þarf meira fjármagn til að fylgja þeim eftir svo þau þurfi ekki að fara út. Þess vegna erum við mjög stolt af því að hafa sótt allt þetta fjármagn hér á landi og vera með þessar íslensku rætur,“ segir Guðmundur.

Skráning eða fjármögnun erlendis til skoðunar

Guðmundur segir að fyrsta áratuginn hjá Controlant hafi fyrirtækið vaxið hægt og í raun verið að finna út hvað það vildi gera. Á meðan sótt það milljarð í fjármagn en árið 2017 mótaði það nýja stefnu. Á árunum 2018 til 2020 sótti félagið 5,5 milljarða í fjármagn, allt innanlands þrátt fyrir að hafa fundað með um 100 erlendum sjóðum. Þar af sótti félagið 3,5 milljarða króna á síðasta ári frá fjölda íslenskra fjárfesta. Félagið hafi þurft að safna fé hratt í fyrra og það hafi verið fljótlegasta leiðin að sækja fé innanlands. „Hin leiðin er bara að fara erlendis,“ segir Guðmundur þar sem vanti sjóði sem fjárfesti fyrir meira en milljarð í einu félagi.

Hann kallar eftir aðgerðum, mögulega þurfi skattalega hvata til að stoppa í þetta gat. Framktakssjóður Frumtaks fjárfesti snemma í Controlant en seldi hlut sinn í nóvember í sölu sem verðmat félagið á um 17 milljarða króna og því er ávöxtun sjóðsins sögð góð. Guðmundur segir fjárfesta félagsins almennt hafa verið mjög þolinmóða þó það hafi komið tímabil þar sem einhverjum fannst vöxturinn heldur hægur. „Þeir örugglega kátir í dag en það voru örugglega tímabil þar sem súlan var ekki að vaxa nógu hratt.“

Næstu skref hjá Controlant hvað varðar að sækja sér fjármagn séu óákveðin. Mögulegt sé að félagið sæki sér frekara fjármagns erlendis í gegnum vaxtasjóð eða vogunarsjóð enda hafi félagið vakið athygli margra aðila með samstarfi við Pfizer. Annar möguleiki sé að skrá félagið á markað.

Upptöku af fundinum má sjá hér að neðan: