*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Erlent 24. mars 2020 19:07

Alheimskreppa í kortunum

Alþjóðleg vísitala sem sýnir innkaup fyrirtækja hefur aldrei verið lægri. Kína slakar á hömlum eftir ríflega tveggja mánaða baráttu.

Ritstjórn
Kristalina Georgieva er framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
european pressphoto agency

Methrun var í umsvifum hjá fyrirtækjum Evrópu í mars eftir aðgerðir stjórnvalda víða um álfuna til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar Covid 19 sem breiðst hefur ört um heimsbyggðina síðustu mánuði. Jafnframt hefur orðið mikið fall í væntingavísitölum víða um heim.

Þetta kemur fram í niðurstöður könnunar sem gerð var meðal innkaupastjóra hjá fyrirtækjum, og er fyrsta alþjóðlega samanburðarhæfu tölurnar sem sýna áhrif samkomu- og útgöngubanna, auk annarra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til, svo heilbrigðiskerfi þeirra ráði við fjölda smitaðra.

Féll vísitala innkaupastjóra, Purchasing Managers Index, sem tekin er saman af fyrirtækin IHS Markit, fyrir evrusvæðið úr 51,6 í febrúar niður í 31,4 samkvæmt nýjum tölum sem birtar voru í dag.

Vísitalan hefur aldrei verið lægri síðan hafið var að taka hana saman í júlí 1998, en öfugt við þegar efnahagskreppan reið yfir í kjölfar fjármálakrísunnar 2008, er samdrátturinn merkjanlegustur í þjónustugeirum ýmis konar.

Þess má geta að í dag tilkynntu stjórnvöld í Kína hins vegar um að hömlum verði aflétt á heilbrigt fólk í Wuhan borg, þar sem kórónuveirunnar varð fyrst vart, þann 8. apríl næstkomandi, en þeim var komið á fyrir tveimur mánuðum síðan.

Meiri samdráttur í þjónustu en framleiðslu

„Viðskiptaumsvif á evrusvæðinu hrundi það mikið í mars að það fer langt umfram það sem við sáum þegar fjármálakreppan stóð sem hæst,“ hefur WSJ eftir Chris Williamsson aðalhagfræðing IHS Markit.

Þannig dróst eftirspurn og framleiðsla saman hjá flestum fyrirtækjum í Evrópu, en til að mynda var meiri samdráttur í þjónustu í Frakklandi þar sem eftirspurnin náði metlægðum, meðan mun hóflegri samdráttur var í framleiðslu í Þýskalandi. Framleiðslan þar í landi var reyndar á svipuðum slóðum og í janúar síðastliðnum samkvæmt tölunum.

Florian Hense, hagfræðingur hjá Berenberg bankanum segir að líkur séu á að hagtölur sýni metsamdrátt á tímabilinu frá mars til maí.

„Hinar fordæmilausu efnahagslegu aðgerðir geta falið í sér hættu á fjármálakreppu og ýtt undir uppsveiflu á ný í kjölfarið. En þær geta ekki komið í veg fyrir samdrátt meðan á takmörkununum stendur,“ segir Hense.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði spáð að hagvöxtur myndi dragast eilítið saman á alþjóðavísu áður en til aðgerðanna var gripið en í gær heyrðist allt annað hljóð í skrokknum.

„Útlit er fyrir að hagvöxtur í heiminum á árinu 2020 verði neikvæður, samdrátturinn verði að minnsta kosti jafnslæmur og þegar fjármálakreppan reið yfir eða verri,“ segir framkvæmdastjóri AGS, Kristalina Georgieva.

Minni takmarkanir í Japan en víða

PMI vísitalan fyrir Japan sýnir mikinn samdrátt líkt og annars staðar, og hefur hún ekki verið jafnlág fyrir landið síðan byrjað var að taka hana saman árið 2007 þar, og hafa umsvifin ekki dregist jafnhratt saman þar í landi síðan flóðbylgjan reið yfir árið 2011, en um 10 þúsund manns létust í þeim hamförum.

Hins vegar eru takmarkanir á samkomuhald og önnur samskipti mun afslappaðri í Japan heldur en víða annars staðar, og þó skólar hafi verið lokaðir í allan marsmánuð hafa bæði skrifstofur og veitingastaðir verið opnir áfram. Þrátt fyrir það féllu viðskipti í minni dagvörubúðum saman um 12,2% í febrúar frá fyrra ári.

Hins vegar jókst salan í stærri vöruhúsum, eða um 4,1%, sem rekja má til þess að mörg heimili hafi birgt sig upp af mat. Í Ástralíu hefur þjónustugeirinn líkt og annars staðar orðið verst fyrir barðinu á áhrifum útbreiðslu kórónuveirunnar, sérstaklega fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Stikkorð: PMI Covid 19