Kínverski netverslunarrisinn Alibaba hefur fjárfest fyrir 200 milljónir dala, andvirði um 27,7 milljarða króna, í samskiptamiðlinum Snapchat, að því er segir í frétt BBC.

Miðað við kaupverðið er markaðsvirði Snapchat um 15 milljarðar dala, sem gerir það að einu verðmætasta nýsköpunarfyrirtæki heims. Notendur Snapchat geta sent hverjir öðrum myndir og myndbönd sem eyðast tíu sekúndum eftir að horft hefur verið á þau.

Samkvæmt upplýsingum frá Snapchat eru um 700 milljónir slíkra skeyta send á degi hverjum, en skammt er síðan fyrirtækið fór að mynda tekjur með auglýsingasölu.