*

laugardagur, 18. janúar 2020
Erlent 4. janúar 2017 18:08

Alibaba kærir falsara

Í fyrsta sinn kærir kínversk sölusíða seljendur falsaðra vara eftir að hafa verið sett á svartan lista hjá bandarískum stjórnvöldum.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Í fyrsta skipti síðan sölusíðan hóf starfsemi hefur kínverska fyrirtækið Alibaba kært tvo seljendur á síðu sinni fyrir að selja falsaðar vörur.

Gerðist þetta einungis nokkrum dögum eftir að síðan var sett á svartan lista hjá bandarískum stjórnvöldum fyrir að leyfa sölu á fölsuðum varningi.

Kæran var á hendur tveggja aðila sem seldu fölsuð Swarovski úr á Taobao undirsíðu sinni, en hún líkist um margt e-bay í uppsetningu. Krafðist fyrirtækið 1,4 milljón yuan í skaðabætur frá fyrirtækjunum.

Lögðu hald á 125 fölsuð Swarovski úr

Lögreglan í Shenzhen Luohu héraði gerði húsleit hjá söluaðilunum í ágúst og lagði hald á yfir 125 fölsuð Swarovski úr, að andvirði um 2 milljónir yuan. Annar söluaðili var einnig fundinn þegar húsleitin var gerð.

Þetta er í fyrsta sinn sem Alibaba, eða í raun nokkur netverslun í Kína, hefur gripið til aðgerða gegn söluaðilum sínum. Gerist þetta í kjölfar aukinnar gagnrýni á fyrirtækið fyrir að grípa ekki til aðgerða til að stöðva falsanir.

Stofnun verslunar og viðskipta í Bandaríkjunum bætti síðunni Taobao nýlega á lista sinn yfir alræmdar síður eftir að hafa tekið hana af honum árið 2012.

Alibaba hefur gripið til aukinna aðgerða til að stöðva sölu falsaðra vara, og nýtir fyrirtækið til þess um 2.000 starfsmenn og 5.000 sjálfboðaliða til að finna falsaðar vörur.

Stikkorð: Alibaba yuan Shenzhen Luohu Swarovski Taobao