Netverslunarrisinn kínverski Alibaba hefur nú staðfest kaup sín á fjölmiðlinum South Morning Post (SCMP), áhrifamiklum fjölmiðli frá Hong Kong sem skrifar á ensku.

Markmið fyrirtækisins er að bæta umfjallanir fjölmiðla sem fjalla um Kína, en SCMP nýtur ritstjórnarfrelsis sem er talsvert umfram ritskoðunina sem ríkismiðlarnir þurfa að taka við af hönd ríkisins.

Samkvæmt grein Times um málið vilja forsvarsmenn Alibaba breyta því hvernig vestrænir fjölmiðlar fjalla um Kína, sem þeim finnst of oft vera á neikvæðu nótunum. Þeim finnst þessi neikvæða umfjöllun bitna á verði hlutabréfa Alibaba Group.

„Það sem er gott fyrir Kína er einnig gott fyrir Alibaba”, sagði Joseph C. Tsai, varaformaður stjórnar fyrirtækisins í viðtali við Times. Miðillinn, sem er 112 ára gamall, var seldur á rúmar 100 milljónir bandaríkjadala, eða því sem um nemur 12,8 milljörðum íslenskra króna.

Þetta er ekki ýkja stór fjárhæð fyrir Alibaba-menn - en félagið veltir rétt um 1.544 milljörðum íslenskra króna á ársgrundvelli.