Tekjur kínverska netverslunarfyrirtækisins Alibaba jukust um níu prósent á milli ára á síðasta ársfjórðungi. Námu tekjurnar 30 milljörðum Bandaríkjadala, eða tæplega fjögur þúsund milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Þrátt fyrir tekjuaukninguna á milli ára gaf félagið út viðvörun þess efnis að samkomutakmarkanir í Kína vegna Covid-19 hafi haft verulega neikvæð áhrif. Daniel Zhang, forstjóri félagsins, segir að takmarkanirnar hefðu valdið því að tekjur félagsins hefðu minnkað á milli ára í aprílmánuði. Félagið tapaði 2,4 milljörðum Bandaríkjadala, eða rúmum 300 milljörðum króna, á síðasta ársfjórðungi.

Gengi bréfa Alibaba í kauphöllinni í Hong Kong hefur hækkað um 12% frá opnun markaða. Gengið stendur í tæpum 91 Hong Kong-dölum á hlut.