Robert Z. Aliber, fyrrum hagfræðiprófessor við Chicago háskóla, gagnrýndi alþjóðlegt umhverfi gjaldmiðlaviðskipta harðlega í fyrirlestri sem hann hélt í Háskóla Íslands í dag. Þetta er í annað sinn sem Aliber heldur fyrirlestur hér á landi. Hann hefur fylgst með efnahagsmálum heimsins í tugi ára og fjallaði í dag um stöðu mála í sögulegu samhengi.

Aliber sagði það ekki auðvelt fyrir hann að gagnrýna umhverfi gjaldmiðlaviðskipta, þar sem höfundar kerfisins og stuðningsmenn þess séu margir hverjir fyrrum kennarar hans og vinir. Hann telur þó nauðsynlegt að bjóða því birginn, komið hafi í ljós að kerfið er mun sveiflukenndara en áður var talið. Aliber sagði sveiflur gjaldmiðla hafa verið mun meiri en spáð var, meðal annars vegna vaxtamunaviðskipta.

Í upphafi fyrirlestursins spurði Aliber fundargesti hversu mikla ábyrgð þeir töldu alþjóðlegt fjármálakerfi bera á hruninu, hversu mikla ábyrgð stjórnvöld bæru og hversu stóran part mætti kenna eigendum og stjórnendum bankanna um ófarirnar. Hans svar, sem hann upplýsti um í lok ræðu sinnar, var að um 85% ábyrgðar sé á herðum hins alþjóðlega kerfis. Stjórnvöld eru ábyrg fyrir um 5% skaðans og 5-10% má rekja til stjórnenda fjármálastofnanna.