*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 8. maí 2019 09:45

„Álið er hluti af lausninni“

Ársfundur Samáls verður haldinn í Hörpu en á þessu ári eru 50 ár síðan álframleiðsla hófst á Íslandi.

Ritstjórn
Fundurinn Samáls verður í Hörpu.
Haraldur Guðjónsson

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir að loftslag- og umhverfismál verði í brennidepli á á ársfundi Samáls sem verður haldinn í Kaldalóni í Hörpu í fyrramálið. Yfirskrift fundarins, sem hefst klukkan 8.30 og stendur til 10, er„Álið er hluti af lausninni".

„Við munum einnig ræða hvernig til hefur tekist með uppbyggingu orkuiðnaðar á Íslandi, en á þessu ári eru 50 ár síðan álframleiðsla hófst á Íslandi og má segja að þá hafi iðnvæðingin hafist fyrir alvöru,“ segir Pétur.

Magnús Þór Ásmundsson, stjórnarformaður Samáls og forstjóri Alcoa, gefur tóninn með því að ræða stöðu og horfur í íslenskum áliðnaði og samkeppnisumhverfið á heimsvísu. Þá flytur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarp. Verðmætasköpun í hálfa öld er yfirskrift erindis Ingólfs Benders, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, sem rýnir í hvernig til hefur tekist með uppbyggingu orkuðiðnaðar á Íslandi og tækifærin sem skapast hafa.

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, fjallar um íslenskan áliðnað út frá sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Kristín Sigurjónsdóttir ræðir nýsköpun í öryggismálum, en hún stýrir AMS, rannsóknarstofnun álvera á Norðurlöndum. Statnett, sem er landsnetið í Noregi, verður einmitt með til sýnis þjálfunarbúnað í sýndarveruleika.

Steinunn Dögg Steinsen, framkvæmdastjóri umhverfis- og öryggismála hjá Norðuráli, ræðir áherslur íslensks áliðnaðar í loftslagsmálum, en mikill árangur hefur náðst í að draga úr losun hér á landi á hvert framleitt tonn eða um 75% frá árinu 1990 og eru ýmsar frekari aðgerðir í farvatninu.

Í lok fundarins fer Pétur Blöndal yfir sviðið og ræðir hringrásarhagkerfið. Loks má geta þess að gestum fundarins gefst kostur á að skoða nýjan rafbíl, Jaguar I-Pace, sem er að uppistöðu til úr áli.

Stikkorð: Samál