Álverin er eitt en áliðnaður er annað. Skýr merki eru um að iðnaður sé farinn að breiða úr sér í íslensku hagkerfi, skjóta dýpri rótum. Aðkeypt þjónusta álveranna nam í fyrra um 24 milljörðum króna. Iðnaðurinn er reglulega pólitískt þrætuepli.

Áliðnaðurinn er að mestu bundinn við álverin þrjú í Straumsvík (Rio Tinto Alcan), Grundartanga (Norðurál) og við Reyðarfjörð (Alcoa) en hann hefur víðar skotið rótum. Nákvæm kortlagning á umfangi áliðnaðarins hér á landi, þ.e. álverunum og afleiddri þjónustu, hefur ekki farið fram enn. Mikil vinna hefur þó verið unnin, ekki síst hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, við að greina hvernig landið liggur og gefa þær upplýsingar sem liggja fyrir vísbendingu um stöðu mála. Í grófum dráttum hefur áliðnaður, og ýmsar hliðar hans, vaxið mikið á undanförnum áratug. Hjá álverunum þremur starfa um 1.800 manns. Sé mið tekið af starfamargfaldaranum sem Hagfræðistofnun hefur miðað við í athugunum sínum eru um 4.300 störf beintengd við álframleiðsluna með einhverjum hætti.

Mikið vatn runnið til sjávar

Áliðnaður, þá ekki síst álverin sjálf, hafa verið nokkurt þrætuepli í opinberri umræðu undanfarin ár. Einkum og sér í lagi náði hún hámarki er Kárahnjúkavirkjun, sem útvegar álveri Alcoa á Reyðarfirði rafmagn, var í uppbyggingu á árunum 2003 til 2008. Þá var einnig tekist harkalega á um stækkunaráform Rio Tinto Alcan í Straumsvík sem endaði með íbúakosningu í Hafnarfirði, þar sem áformin voru felld. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, ekki síst efnahagslega. Hrun bankanna og hátt meðaltalsatvinnuleysi, um 8 til 10% frá hruni, hefur þrýst á um að aukin atvinnutækifæri verði sköpuð. Nauðsynlegt er að auka erlenda fjárfestingu í hagkerfinu að mati Seðlabanka Íslands, auk þess sem Landsvirkjun hefur opnað hjá sér efnahagsreikninginn enn frekar og upplýst um söluverð á raforku til álverana, sem árum saman var uppspretta deilna.

Samkvæmt skoðanakönnunum sem Samál hefur látið gera líta um 54% af landsmönnum með jákvæðum huga til áliðnaðar. Um 23% hafa litla skoðun á honum en 23% landsmanna hafa neikvætt viðhorf til áliðnaðar. Kannanir sem gerðar hafa verið í gegnum tíðina um viðhorf til áliðiðnaðar og stóriðju hafa sýnt töluverðar sveiflur, í takt við breyttan tíðaranda og viðhorf á hverjum tíma. Pólitískar deilur hafa oft verið harðar um álversuppbyggingu og eru raunar enn. Vinstri græn hafa markað sér sérstöðu í þeim efnum á hinu pólitíska sviði en flokkurinn hefur lagst gegn uppbyggingu áliðnaðar og ályktað um það ítrekað á fundum flokksfélaga víða um land.

Hvað sem líður pólitískum deilum, ekki síst um náttúruvernd í tengslum við virkjanaframkvæmdir, hefur rekstur tengdur áliðnaði vaxið jöfnum skrefum undanfarin ár. Störfum hefur fjölgað og nú síðast hefur nýfjárfesting margfaldast.

Aðkeypt þjónusta

Álverin þrjú keyptu þjónustu frá um 500 fyrirtækjum fyrir um 24 milljarða á síðasta ári. Þessi tala hefur farið vaxandi, ekki síst eftir að álver Alcoa hóf starfsemi. Útgjöld álfyrirtækjanna í heild námu um 80 milljörðum á árinu 2010. Meðal stórra kaupenda þjónustunnar eru verkfræðistofur og ýmis fyrirtæki sem koma að viðhaldi og viðgerðarverkefnum. Fjárfestingar Rio Tinto og Alcoa hér á landi eftir hrun nema samtals um 60 til 70 milljörðum króna. Þar munar mestu um umsvifamiklar breytingar á álverinu í Straumsvík sem nú eru í fullum gangi, m.a. á vegum HRV, samstarfsvettvangi innlendra verkfræðistofa í tengslum við orkuiðnað og stóriðju. Áætlað er að kostnaður við þessa framkvæmd verði um 60 milljarðar króna.

Úttekt á áliðnaði er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.