Mest hefur selst af alifuglakjöti á síðustu tólf mánuðum en markaðshlutdeild þess á kjötmarkaðnum er 31,6%. Kindakjöt er í 2. sæti með 26,3% markaðshlutdeild, í 3. sæti er svínakjöt með 24,5%, í 4. sæti er nautakjöt með 15% og í 5. sæti er hrossakjöt með 2,6% markaðshlutdeild.

Á síðustu tólf mánuðum hefur kjötsala dregist saman um 1,1%. Þetta kemur fram á vef Landssamtaka sauðfjárbænda og er tekið fram að innflutt kjöt sé ekki tekið með í reikninginn.

Sala á kindakjöti jókst um ríflega 6% í júní miðað við sama mánuð í fyrra. Alls var selt 441 tonn af kindakjöti í júní samanborið við 415 tonn í júní árið 2013. Sala á öðrum ársfjórðungi eða frá apríl til júní jókst um 7,2% milli ára en á ársgrundvelli hefur salan dregist saman um 0,5%.