Skúli Helgason þingmaður Samfylkingarinnar lagði fram ákveðnar hugmyndir um útfærslu á sértækri skuldaaðlögun fyrirtækja við upphaf þingfundar í dag. Þar á meðal að öll fyrirtæki yfir tiltekinni stærð, sem bankarnir hefðu tekið yfir, færu í opið útboð þar sem fyrri eigendur nytu ekki forgang. Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vinstri grænna fagnaði þeim spurningum sem Skúli velti upp og sagði brýnt að Alþingi og aðrir tæki á þeim og ræddi.

Lilja Mósesdóttir sem einnig situr á Alþingi fyrir Vinstri græna sagði að pólitíska stefnumótun vanti í þessum efnum. Hún gerði lítið úr þeirri fullyrðingu að ekkert væri hægt að gera til að koma í veg fyrir að útrásarvíkingar, sem hún kallaði svo, fengju fyrirtækin sín aftur. Nefndi Lilja að stjórnendur bankanna hefðu fengið tilmæli frá stjórnvöldum að hámarka virði eigna. Það væri opinbera stefnumótunin í þessum efnum. Það þýddi á mannamáli að bönkunum bæri að taka hæsta tilboði í fyrirtæki eins og í tilviki Haga.

Lilja vill ekki að fyrri eigendum fyrirtækja sé veittur forkaupsréttur eins og í tilfelli Haga þar sem Jóhannes Jónsson getur keypt allt að 10% í fyrirtækinu. Hún vill gera þá kröfu til bankanna að þeir láti framkvæmda álagspróf á fyrri eigendum þar sem metnar eru líkur á því að þeir keyri fyrirtæki í þrot byggt á reynslu. Hún furðar sig á að hluthafar í gjaldþrota eignarhaldsfélagi, sem eru þá væntanlega eigendur 1998, geti gert hátt tilboð í Haga.