Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að mínúturnar í framsöguræðu Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, um heimildir ríkissjóðs til að taka allt að 500 milljarða lán, hefðu verið dýrar.

Steingrímur sagði að lánsheimildin væri herkostnaður af stóriðju-, skattalækkunar- og útrásarveislum undanfarinna ára. „Mistökin í hagstjórn á Íslandi eru nú að koma þjóðarbúinu í koll,“ sagði hann.

Fjármálaráðherra mælti í upphafi þingfundar fyrir frumvarpi til laga um heimild ríkissjóðs til að taka á árinu 2008 lán fyrir allt að 500 milljörðum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána Seðlabanka Íslands þann hluta sem tekinn verður að láni í erlendri mynt. Tilgangurinn er meðal annars að efla gjaldeyrisforða bankans.

Árni sagði að ekki lægi fyrir á þessu stigi hvenær á árinu, að hvaða marki, í hvaða áföngum eða í hvaða hlutföllum erlendrar og innlendrar lántöku heimildin yrði nýtt - enda myndi það ráðast af aðstæðum. „Rétt þykir hins vegar að fyrir liggi sérstök lántökuheimild sem geri kleift að ráðast á þessu ári með litlum fyrirvara í verulegar erlendar eða innlendar lántökur umfram þær lántökur sem fjárlög ársins 2008 gerðu ráð fyrir.“

Stærsta einstaka lántaka sögunnar

Steingrímur J. Sigfússon sagði að ráðherra hefði þarna mælt fyrir stærstu einstöku lántöku Íslandssögunnar. Mistökin í hagstjórn Íslands væru nú að koma þjóðarbúinu í koll. Ríkissjóður ætlaði að taka á sig umtalsverðar byrðar.

Fram kom í máli Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins og Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, að þau styddu frumvarpið.

Frumvarpið í heild má finna hér.