Meirihluti iðnaðarnefndar Alþingis telur ástæðulaust að gera kröfu um 2/3 eignarhlut hins opinbera á orkufyrirtækjum og leggur því til í áliti sínu um orkufrumvarpið svonefnda að einföld meirihlutaeign verði látin nægja. Önnur umræða um frumvarpið fer nú fram á Alþingi. Miðað er við að frumvarpið verði afgreitt frá Alþingi í vikunni.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í lok febrúar. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að samkeppnis- og sérleyfisþættir í rekstri orkufyrirtækja verði almennt reknir í aðskildum félögum. Þá er lagt til að sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækjanna skuli vera í höndum fyrirtækja sem eru a.m.k. að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila.

Smærri fyrirtæki verði undanþegin kröfu um aðskilnað

Meirihluti iðnaðarnefndar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Meðal annars að einföld meirihlutaeign nægi, eins og fyrr sagði. Þá telur meirihluti nefndarinnar rétt að smærri fyrirtæki verði undanþegin kröfu um fyrirtækjaaðskilnað.

Í upphaflegu frumvarpi er lagt til að ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu sé heimilt að veita einkaaðilum tímabundinn afnotarétt af vatns- og jarhitaréttindum til allt að 65 ára í senn.

Nefndin leggur til að því verði bætt við frumvarpið að handhafi tímabundins afnotaréttar skuli eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma sé liðinn.