Efnahags- og skattanefnd Alþingis telur ekki tímabært að stíga það skref til fulls að afnema stimpilgjald af fasteignaviðskiptum. Hún mælir því með samþykkt frumvarps um að gjaldið verði afnumið við kaup á fyrstu fasteign. Miðað er við að lögin, verði þau samþykkt, taki gildi 1. júlí.

Fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi fyrr í vetur. Gert er ráð fyrir því að það verði samþykkt í vikunni.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að afnema stimpilgjöld að fullu á kjörtímabilinu eða þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa.

„Nefndin telur líklegt að staðan á fasteignamarkaði leyfi niðurfellingu stimpilgjalds en þar sem misvísandi teikn eru um stöðu í efnahagsmálum í heild sinni telur nefndin ekki tímabært að stíga það skref til fulls þótt um það séu skiptar skoðanir. Litið yrði á slíkt sem skattalækkun og það væri ekki heppilegt á meðan Seðlabankinn heldur stýrivöxtum háum til að berjast við verðbólgu. Hins vegar kann að styttast í að staða efnahagsmála gefi færi á að fella gjaldið niður að fullu," segir í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar.