Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp sem fjallar um  uppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðlum. Í frumvarpinu, sem nú er orðið að lögum, er kveðið á um farveg fyrir fullnaðaruppgjör viðskipta með slík verðbréf. Kveðið er á um að  verðbréfamiðstöð hafi milligöngu um uppgjör slíkra bréfa.

Viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, lagði frumvarpið fram á Alþingi í vetur. Það byggir á niðurstöðum nefndar, undir forystu Jóns Sigurðssonar, er fékk það hlutverk að fara yfir lagaákvæði er varða uppgjör innlends hlutafjár sem skráð er í erlendri mynt.

Í athugasemdum frumvarpsins segir að það hafi ekki verið skráningin sem slík sem hafi verið vandamálið heldur hvar og hvernig peningalegt uppgjör slíkra viðskipta skyldi fara fram þannig að fyllsta öryggis væri gætt.

„Þar sem allmörg íslensk hlutafélög sem skráð eru á verðbréfamarkaði Kauphallar Íslands hafa þegar fengið heimild hluthafafunda til þess að ákveða hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli og við því er búist að fleiri bætist í hópinn er brýnt að setja sem fyrst ákvæði í íslensk lög um uppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðlum svo að slík viðskipti geti farið skipulega og örugglega fram með milligöngu íslenskra verðbréfamiðstöðva," segir í athugasemdum frumvarpsins sem nú hefur verið samþykkt.

Frumvarpið, sem samþykkt var með 49 samhljóða atkvæðum, má finna í heild sinni hér .