Áfengis- og tóbaksgjald hækkar um 12,5% samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í kvöld. Samtals er áætlað að tekjur ríkissjóðs af áfengis- og tóbaksgjaldi verði rúmlega 13 milljarðar á næsta ári.

Fjárhæð áfengisgjalds af sterku víni hækkaði síðast í nóvember 2004, en fjárhæð áfengisgjalds af léttu víni og bjór hefur verið óbreytt frá 1. júlí 1998.

„Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 70% frá 1. júlí 1998 og 31% frá nóvember 2004 og hefur áfengisgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur," segir í skýringum frumvarpsins.

Fjárhæð tóbaksgjalds hefur verið óbreytt frá nóvember 2004.

„Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 31% frá þeim tíma og hefur tóbaksgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur," segir einnig í skýringum frumvarpsins.

Það var samþykkt með 35 samhljóða atkvæðum.