Alþingi var rétt í þessu að samþykkja frumvarp um heimild ríkissjóðs til að taka lán fyrir allt  að 500 milljörðum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Frumvarpið var samþykkt með 50 samhljóða atkvæðum. Þingmenn allra flokka greiddu því atkvæði.

Annars vegar er gert ráð fyrir að nýta megi heimildina til töku erlends láns í því augnamiði að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Hins vegar að nýta megi heimildina til aukinnar útgáfu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði í þeim tilgangi að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað.

Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, mælti fyrir frumvarpinu í upphafi vikunnar og hlaut það flýtimeðferð í þinginu svo afgreiða mætti það fyrir þinglok í sumar.

Maraþon þingfundur hefur farið fram á Alþingi í dag. Þegar þetta er skrifað hafa nítján frumvörp verið gerð að lögum í dag. Meðal annars orkufrumvarpið svonefnda, frumvarp um breytingar á samkeppnislögum og frumvarp um endurskoðendur.