Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um breytingu á lögum um húsnæðismál var samþykkt á Alþingi nýverið.

Fram kemur á vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins að samkvæmt lögunum er nú heimilt að lengja lánstíma lána vegna greiðsluerfiðleika í allt að 30 ár í stað 15 ára og hámarkslánstími hjá sjóðnum er lengdur úr 55 árum í 70 ár.

Þá kemur fram að lenging hámarkslánstíma í 70 ár er gerð til að tryggja að allir geti nýtt sér heimild til skuldbreytingar láns í 30 ár. Þá er sjóðnum nú heimilt að leigja eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur leyst til sín á nauðungarsölu.

„Breytingarnar eru liður í aðgerðum sem ráðherra hefur gripið til í samvinnu við Íbúðalánasjóð til að auka möguleika sjóðsins á því að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda,“ segir á vef ráðuneytisins.

Þá hefur heimild Íbúðalánasjóðs til að leigja eða fela öðrum að annast útleigu íbúðarhúsnæðis, þann megintilgang að gera leigjendum íbúða sem sjóðurinn hefur eignast á nauðungaruppboði, eða eigendum íbúða sem hafa misst þær vegna greiðsluerfiðleika, kleift að búa áfram í íbúðinni í tiltekinn tíma gegn leigu.

Hér má nálgast lögin.