Róbert Marshall og Helgi Hjörvar, þingmenn Samfylkingarinnar, og Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vöruðu við bónuskerfi sem verið væri að setja upp í bönkunum og tengdust meðal annars endurheimtum á skuldum heimilanna í landinu. Helgi Hjörvar sagði koma til greina að ræða á Alþingi hvernig þessum málum yrði háttað hér á landi, ekki bara í þeim fjármálafyrirtækjum sem ríkið ætti hlut í.

Róbert sagði að það hefði ráðið miklu í hruni bankanna að þeir höfðu komið sér upp árangurshvetjandi launakerfi sem beinlínis hvatti til skammtímaáhættutöku. Það væri meginástæða fyrir fjármálakrísunni. Helgi Hjörvar sagði alveg ljóst að íslensku bankarnir hefðu umtalsvert svigrúm til að afskrifa skuldir heimilanna. „Það er mikilvægt að bankarnir nýti það svigrúm sem þeir hafa í því skyni," sagði hann og ræða þyrfti hvort banna ætti kaupauka- eða bónusgreiðslur, sem tengjast endurheimtum á skuldum heimilanna.

Lilja Mósesdóttir sagðist hafa reynt mikið sem formaður viðskiptanefndar að komast að því hve mikið rými bankar hefðu til að færa niður skuldir heimilanna. Hún teldi það eitt duga að þingheimur setti lög þar sem bankarnir væru þvingaðir til að koma hlaupandi til að segja að þeir hefðu ekki svona mikið svigrúm til að lækka skuldir heimilanna. Lögin myndu þá kveða á um að færa ætti lánin niður.