Starfsmenn Nóa Sírius muni í dag mæta mæta með glaðning til þingmanna og starfsmanna Alþingis. Glaðningurinn er lítill poki fullur af íslensku gotteríi og pokanum fylgja uppbyggileg hvatningarorð ýmissa þekktra Íslendinga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nóa Sírius.

Nammipokanum, sem hlotið hefur nafnið Gleðigjafinn, verður dreift til starfsmanna og þingmanna áður en þeir fara inn á þingflokksfundi kl.13:30.

Þá kemur fram í tilkynningunni að á næstu dögum verður pokunum dreift inn á vinnustaði og til fólks á förnum vegi.

„Um er að ræða framlag starfsmanna Nóa Síríusar til að gleðja landann á þessum erfiðu tímum,“ segir í tilkynningunni.

„Einnig til að minna fólk á að innlend framleiðsla er það sem gildir þegar gengi krónunnar er lágt eins og núna.“