Útlán bankanna sem tengjast þingmönnum og mökum þeirra námu í það minnsta 8,3 milljörðum króna á árunum 2005 – 2008.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis en nefndin tók sérstaklega fyrir heildarstöðu útlána til þingmanna og maka þeirra eða félögum á tímanum frá ársbyrjun 2005 fram að falli bankanna haustið 2008.

Nánari tafla yfir þessa alþingismenn er birt óbreytt úr rannsóknarskýrslunni hér til hliðar.

Þar kemur fram að lán sem tengjast Sólveigu Pétursdóttur, fyrrv. dómsmálaráðherra og forseta Alþingis, námu rúmum 3,6 milljörðum króna, langmest allra alþingismanna. Öll veruleg lán sem tengjast Sólveigu á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar. Stærstu lánin voru til félags Kristins, Mercatura ehf., og af þeim voru hæstu lánin í gegnum framvirka samninga.

Helstu verðbréf sem lágu að baki þeim samningum voru hlutabréf FL Group hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. og skuldabréf Icebank. Í stærstu lánum og framvirkum samningum Kristins og Mercatura var Glitnir mótaðili. Þá var félag í helmingseigu Kristins, Geri ehf., með 200–300 milljóna króna lán hjá Landsbanka á tímabilinu.

Af núverandi alþingismönnum var stærsta útlánastaðan gagnvart Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins en þau í lok september 2008 tæpum 1,7 milljarði króna. Öll veruleg lán sem tengjast Þorgerði Katrínu á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristjáns Arasonar.

Stærstu lánin voru fyrst til Kristjáns beint en síðar til félags í hans eigu, 7 hægri ehf., vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Kristján var framkvæmdastjóri í bankanum og tengdust lánin starfshlunnindum til hans.

Öll veruleg lán sem tengjast Herdísi Þórðardóttur á tímabilinu, rétt rúmur milljarður króna, voru á vegum eiginmanns hennar, Jóhannesar Sigurðar Ólafssonar, eða félags í sameiginlegri eigu þeirra. Stærstu lánin voru í gegnum framvirka samninga um íslensk hlutabréf, svo sem hlutabréf FL Group hf., Landsbanka Íslands hf.,Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og Actavis Group hf. Umfang viðskiptanna var mest árið 2006. Á árinu 2005 gerði Jóhannes S. Ólafsson ehf., félag í sameiginlegri eigu þeirra hjóna, nokkuð af framvirkum samningum en um nokkru lægri fjárhæðir en Jóhannes sjálfur.

Öll veruleg lán sem tengjast Lúðvík Bergvinssyni á tímabilinu, 755 milljónir króna, voru á vegum fasteignafélags í helmingseigu hans, Miðkletts eignarhaldsfélags ehf., og voru þau fengin hjá Landsbanka Íslands hf.

Öll veruleg lán sem tengjast Jónínu Bjartmarz á tímabilinu, rúmar 280 milljónir króna, voru á vegum eiginmanns hennar, Péturs Þórs Sigurðssonar. Jafnframt voru öll veruleg lán til félags Péturs, Lindarvatns ehf. Lánveitandi félagsins var Landsbanki Íslands hf.

Stærstu lán Árna Magnússonar, fyrrv. félagsmálaráðherra, 265 milljónir króna, voru í Glitni banka hf. en Árni var ráðinn sem forstöðumaður til bankans árið 2006. Lánafyrirgreiðslurnar voru annars vegar til Árna sjálfs og hins vegar til félags í hans eigu, AM Equity ehf., en það félag fékk 100 milljóna króna lán til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum.

Helstu lán Ármanns Kristins Ólafssonar, tæpar 250 milljónir króna, voru annars vegar lán í Kaupþingi banka hf. og hins vegar lán í Landsbankanum í gegnum framvirka samninga. Undirliggjandi í þeim samningum voru ýmis hlutabréf, innlend og erlend. Stærstu samningarnir voru um hlutabréf Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.

Helstu lán Bjarna Benediktssonar, nú formanns Sjálfstæðisflokksins, rúmar 170 milljónir króna, voru í Glitni banka hf. Annars vegar var um bein lán að ræða og hins vegar um lán í gegnum framvirka samninga.

Fyrir utan einn um 45 milljóna króna framvirkan samning um hlutabréf Glitnis í upphafi árs 2006 voru þeir framvirku samningar allir um hlutabréf erlendra banka, Deutsche Bank, Morgan Stanley og Lehman Brothers.

Öll veruleg lán sem tengjast Ástu Möller á tímabilinu, um 140 milljónir króna, voru á vegum eiginmanns hennar, Hauks Þórs Haukssonar. Stærsti hluti þeirra lána var í gegnum framvirka samninga sem Stafholt ehf., félag Hauks, og Investis ehf., félag í helmingseigu Stafholts, gerðu. Stærstu samningarnir voru um íbúðabréf, þ.e. skuldabréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Framvirku samningarnir voru gerðir við Kaupþing banka hf. en lán voru í Landsbanka Íslands hf.

Þau lán sem tengjast Ólöfu Nordal, rúmar 110 milljónir króna, á tímabilinu voru lán til hennar og eiginmanns hennar, Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra Alcoa á Íslandi, og voru aðallega í Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf.