Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í dag reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings.

Í reglunum er kveðið á um að skrifstofa Alþingis skuli halda skrá, og birta opinberlega, um fjárhagslega hagsmuni alþingismanna svo og um trúnaðarstörf þeirra utan þings.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis en þar kemur fram að með setningu reglnanna ætlast forsætisnefnd til þess að alþingismenn skrái fjárhagslega hagsmuni sína og birti þá opinberlega.

Gert er ráð fyrir að reglurnar verði endurskoðaðar fyrir 1. des. nk. með það í huga að þá verði sett lög um þessa skráningu. Reglurnar hafa verið unnar með hliðsjón af þeim reglum sem gilda um þetta efni í danska þinginu auk þess sem horft hefur verið til samsvarandi reglna í norska þinginu.

Fram kemur í tilkynningunni að í reglunum eru tilgreindir þeir fjárhagslegu hagsmunir sem þingmenn skuli skrá. Þar er m.a. um að ræða skráningu á launaðri starfsemi (annarri en þingmennsku), eignum (öðrum en eigið húsnæði), fjárhagslegu samkomulagi við fyrrverandi eða verðandi vinnuveitenda, fjárhagslegum stuðningi og gjöfum frá innlendum og erlendum lögaðilum og einstaklingum, utanlandsferðum og eftirgjöf eftirstöðva skulda o.s.frv.

„Með síðastnefnda atriðinu er ætlað að tryggja að það komi skýrt fram ef menn njóta sérstakra fríðinda við meðferð skulda sinna,“ segir í tilkynningunni.

„Í því skyni er þingmönnum ætlað að upplýsa um eftirgjöf eftirstöðva skulda auk þess sem skrá skal ívilnandi breytingar á skilmálum samnings við lánardrottin og jafnframt að tilgreina skuli skuldasamning með hagstæðari skilmálum en almennt tíðkast í hliðstæðum samningum.“

Reglurnar kveða einnig á um að skráðar skuli upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög önnur en stjórnmálaflokka óháð því hvort þessi störf eru launuð. Skrá skal nafn félags, hagsmunasamtaka, stofnunar eða sveitarfélags og eðli trúnaðarstarfs.