Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hefur lagt til að Englandsbanka verði fengið meira vald til að koma bönkum til bjargar þegar þarf. Stjórnvöld í Bretlandi vilja nú kynna til sögunnar nýtt kerfi til verndar bankakerfinu eftir að Northern Rock bankinn hrundi í fyrra. „Reglurnar munu styrkja Englandsbanka í því hlutverki sínu að viðhalda fjármálastöðugleika,“ sagði Darling. Lánsfjárkrísan og áhrif frá henni á efnahags- og bankakerfi Bretlands er af þarlendum stjórnvöldum talin vera mesta vandamál sem fjármálakerfi Breta hefur glímt við undanfarna tvo áratugi. Fleiri breytingar en þær sem greinir hér að ofan verða gerðar til að auka fjármálastöðugleika, samkvæmt frétt BBC. Ný löggjöf mun gefa Englandsbanka það lögbundna hlutverk að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Það hlutverk hefur hingað til ekki verið lögbundið, þrátt fyrir að það hafi verið eitt af meginmarkmiðum bankans.